Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna sem áformaður var með kaupum Samkaupa á tveimur verslunum Basko á Akureyri og í Reykjanesbæ.

Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins en þar segir að mat stofnunarinnar sé að kaupin hefðu raskað verulega samkeppni á þessum tilteknu landssvæðum. Þannig hefði eiginlegum keppinautum fækkað úr þremur í tvo á Akureyri og úr fjórum í þrjá í Reykjanesbæ. Samruninn hefði verið neytendum til tjóns. Meðal annars lét Samkeppniseftirlitið framkvæma neytendakönnun við verslanir á þessum stöðum, til þess að meta samkeppni á viðkomandi svæðum.

Áður hefur Samkeppniseftirlitið heimilað kaup Samkaupa á eignum 12 verslana Basko. Í því máli, sem varðaði upphaflega 14 verslanir, gaf Samkeppniseftirlitið til kynna strax á fyrstu stigum máls að því sýndist að samruninn hefði ekki skaðleg áhrif á samkeppni á höfuðborgarsvæðinu, en líkur væru á því að samkeppni myndi skaðast á staðbundnum svæðum, þ.e. einkum á Suðurnesjum og á Akureyri.

Afréðu samrunaaðilar þá að undanskilja verslanir á Akureyri og í Reykjanesbæ upphaflegum samningi. Á þeim grunni var Samkeppniseftirlitinu kleift að taka afstöðu til kaupa Samkaupa á 12 verslunum Basko. Í framhaldinu tilkynntu samrunaaðilar að nýju kaup Samkaupa á útistandandi tveimur verslunum Basko.

„Framangreind kaup Samkaupa á verslunum Basko á höfuðborgarsvæðinu hafa styrkt stöðu Samkaupa sem þriðja stærsta keppinautarins á dagvörumarkaði. Það má hins vegar ekki verða á kostnað neytenda í Reykjanesbæ og á Akureyri. Því var óhjákvæmilegt að ógilda samrunann að því leyti,“ segir á vef eftirlitsins.