Það er oftar en ekki markmiðið við auglýsingagerð að finna hugmynd sem getur öðlast eigið líf. Það er að fjölmiðlar fjalli um þær og fólk deili þeim á samfélagsmiðlum. Þetta sagði Hrafn Gunnarsson, hugmynda- og hönnunarstjóri auglýsingastofunnar Brandenburg, í viðtali við sjónvarpsþáttinn Markaðinn sem frumsýndur var á Hringbraut á miðvikudagskvöld klukkan hálf átta.

„Það myndast mikil verðmæti við að skapa hugmynd sem fer á flug,“ sagði hann. Brandenburg hannaði til dæmis nýja ásýnd fyrir Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Sú vinna hlaut mikla umfjöllun. Hrafn sagði að það hefði kostað KSÍ yfir 100 milljónir króna að ná sömu dreifingu.

Hann benti á að í ljósi þess hve fjölmiðlalandslagið sé fjölbreytt, dagblöð, sjónvarp, vef- og samfélagsmiðlar, hafi þörfin fyrir að feta óhefðbundnar slóðir aldrei verið meiri.

Hrafn hafnaði nýverið á 100 manna lista fagritsins Adweek yfir fólk sem skarað hefur fram úr. Á listanum var ekki einungis fagfólk í auglýsingagerð heldur einnig til dæmis leikarinn Dwayne „The Rock“ Johnson.

Í umsögn voru það einkum tvö verkefni sem vöktu athygli Adweek á Hrafni. Herferðin Fishmas sem unnin var fyrir Íslandsstofu og svo ný ásýnd KSÍ. Hið síðarnefnda var á lista Adweek yfir 25 bestu auglýsingar ársins 2020.