Helga Viðarsdóttir er framkvæmdastjóri ráðgjafarstofunnar Spakur sem aðstoðar nýsköpunarfyrirtæki við verðmat og viðskiptaþróun – og síðan fjármögnun. Nú síðast kom Spakur að rúmlega 200 milljóna króna fjármögnun Responsible Foods sem þróar nýtt heilsunasl úr íslenskum hráefnum, en áður hefur Spakur komið að margvíslegum frumkvöðlaverkefnum.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég byrja daginn á hreyfingu – til þess að fá blóðið af stað. Oftast hleyp ég úti en hef orðið að fara á bretti á þessum þunga vetri. Ég hef síðan staðfasta trú á mikilvægi staðgóðs morgunverðar – hann þarf að vera hollur ! Ég les svo blöðin áður en ég legg af stað til vinnu.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef mikinn áhuga á útivist og í raun öllu sem tengist náttúru- og dýralífi. Draumurinn er að sameina vinnu og áhugamál – flytja út í sveit. Raunar er þetta komið svo langt að ég stefni á að búa í sumarbústaðnum mínum næsta sumar – en sækja áfram vinnu í höfuðborgina. Ég er þegar farin að hlakka til.

störf.PNG

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Ég reyni mitt besta til að sleppa taki á vinnunni þegar ég fer heim í lok dags. Hins vegar er ég svo heppin að starfa með góðu og skemmtilegu fólki og við krefjandi og spennandi verkefni. Ég tel það því ekki eftir mér að „logga inn“ um helgar og á kvöldin ef svo ber undir.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Margar bækur koma upp í hugann, en ég ætla að nefna tvær bækur. Sú fyrri er What I talk about when I talk about running, eftir Haruki Murakami og kom út árið 2008. Þetta er auðvitað snilldarbók sem segir frá hlaupaferli Murakami – en í grunninn er hún leiðarvísir að því hvernig hægt er að ná árangri í nánast hverju sem er með einbeitni og þolgæði. Ég hef tekið þetta til mín í mínu starfi – enda eru þetta lykilatriði þess að frumkvöðla­sprotar verði að stofni.

Seinni bókin sem ég vil nefna er ævisaga Katrínar miklu eftir Jón Þ. Þór sem kom út árið 2018, en hún segir frá ákaflega merkilegri áhrifakonu, sem ekki bara réði ríkjum í Rússlandi á 18. öld í rúm 30 ár, heldur stækkaði ríkið og kom fram miklum umbótum. Hún gerði í raun Rússland að evrópsku stórveldi. Svo var margumrætt einkalíf hennar mjög skrautlegt.

„Íslendingar eru frumkvöðlar í eðli sínu en regluumhverfið er óþægilega flókið og þungt í vöfum.“

Hvernig er fjármögnunarumhverfið fyrir nýsköpunar­fyrirtæki á Íslandi?

Það fer ört batnandi. Með auknum skilningi á mikilvægi nýsköpunar hafa styrkjamöguleikar margfaldast. Það hefur skilað árangri – og við munum sjá ný frumkvöðlafyrir­tæki láta til sín taka í íslensku efnahagslífi á næstu árum. Að sama skapi hefur skilningur og læsi á ávöxtun fjármagns aukist almennt og árangur nýsköpunarfyrirtækja skapað og aukið auð einstaklinga hlutfallslega meira en nokkur önnur starfsemi í heiminum

Hver eru algengustu mistökin sem frumkvöðlar gera í fjármögnun eða viðskiptaþróun?

Það skiptir miklu máli fyrir frumkvöðulinn að fara ekki of snemma af stað með fundi til þess afla fjármagns og verðleggja félagið rétt frá byrjun. Oft er ekki hægt að fá annan séns hjá fjárfestum – ef frumhlaup á sér stað. Það skiptir máli að vera vel undirbúinn. Af þessum sökum leggjum við hjá Spak höfuðáherslu á verðmat og vel útfærðar viðskiptaáætlanir – og það hefur verið okkar lykill að árangri.

Hvaða skref er hægt að taka til að efla íslenska nýsköpun?

Númer 1, 2 og 3 er einfaldara regluverk. Íslendingar eru frumkvöðlar í eðli sínu en regluumhverfið er óþægilega flókið og þungt í vöfum. Ég gæti nefnt skattaafslætti fyrir fjárfestingu í nýsköpun og kaupauka starfsmanna. Það að starfsmenn hafi beinan fjárhagslegan hag af því að markmiðum fyrirtækisins sé náð, eykur verulega líkur á árangri.