Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að það fari lítið fyrir því í opinberri umræðu hve mikilvæg fjármálaþjónusta sé til að skapa tækifæri í atvinnulífinu. „Öflugt bankakerfi er stórt tannhjól í gangverki efnahagslífsins. Ef þess nyti ekki við yrðu efnahagsumsvif mun minni og erfiðara væri fyrir atvinnulífið að nýta tækifæri sem skapa störf og hagvöxt eða mæta þörfum með nýjum hætti. Skattar og lagasetning þurfa að taka tillit til þessara hagsmuna,“ segir hann og nefnir að á hinum Norðurlöndunum hafi verið lögð áhersla á að vera með öflugt fjármálakerfi til að stuðla að kraftmeira atvinnulífi.

Benedikt hefur leitt umfangsmiklar breytingar á rekstri Arion banka frá því að hann tók við sumarið 2019 og afkoman hefur stórbatnað á tímabilinu. Fyrir vikið valdi fjölskipuð dómnefnd Markaðarins Benedikt viðskiptamann ársins 2021.

Benedikt segir að þegar hann tók við keflinu hafi fyrstu skilaboð til starfsfólks verið að Arion banki þyrfti ekki endilega að vera stærstur heldur ætti að veita góða þjónustu og reka bankann með arðbærum hætti.

Aðspurður segir hann að áður hafi helst til mikið verið horft til markaðshlutdeildar á kostnað arðsemi. „Fjármálafyrirtæki sem gera ríkar kröfur til viðskiptavina við lánveitingar þurfa að leiða með góðu fordæmi í sínum rekstri,“ segir bankastjórinn.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, afhenti Benedikt verðlaunin ásamt Helga Vífli Júlíussyni fréttastjóra Markaðarins og Magdalenu Önnu Torfadóttur blaðamanni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann bendir á að fyrirtæki með litla arðsemi yfir lengra tímabil lendi í vandræðum. „Það þarf að fjárfesta í rekstrinum. Ef arðsemin er lítil er minna til skiptanna til að fjárfesta í innviðum. Á undanförnum árum hefur bankarekstur farið í gegnum miklar breytingar samhliða aukinni stafrænni þróun. Til að standast tímans tönn þarf að fjárfesta umtalsvert í upplýsingatækni og víðar í rekstrinum.“

Benedikt segir að viðskiptamódeli Arion banka hafi verið breytt í takt við það umhverfi sem regluverkið skapaði, þar sem hærri eigin- og lausafjárkröfur gerðu lengri fyrirtækjalánveitingar umtalsvert dýrari. Því hóf bankinn að starfa í meiri mæli sem milliliður við lánveitingar í samstarfi við fjárfesta og aðra banka í stað þess að nýta eingöngu eigin efnahagsreikning til að veita lán.

Reksturinn einfaldaður

„Það þurfti að einfalda reksturinn og gera hann skilvirkari og samhliða því að skerpa á ábyrgð í starfsemi bankans. Ferlið við að veita lán var orðið flókið, án þess að augljóst væri að það bætti ákvarðanir. Það voru starfræktar margar lánanefndir og margt fólk sat í þeim. Það hafði í för með sér að erfitt var fyrir starfsfólk bankans að ræða við viðskiptavini og veita þeim leiðsögn um hvaða lán yrðu líklega samþykkt. Gagnvart viðskiptavinum virkaði þetta eins og skortur á viðskiptavilja. Það var gengið of langt í að dreifa ábyrgð og þar með yfirsýn. Þess vegna fækkuðum við nefndunum og færri sátu í þeim, jukum þannig ábyrgð starfsmanna. Við það batnaði samtalið við viðskiptavini umtalsvert, auk þess sem ég tel ákvarðanirnar hafa orðið betur ígrundaðar,“ segir hann.

„Það var of lítið rætt um arðsemi og viðskiptasambandið á lánanefndarfundum.“

Af hverju var arðsemi lánasafnsins ekki betri en raun bar vitni ef fjöldi manns fór yfir lánveitingarnar?

„Það var of lítið rætt um arðsemi og viðskiptasambandið á lánanefndarfundum. Lánin voru kynnt og fjallað um þau en of lítið rætt um verðlagningu og arðsemi í samhengi við áhættu,“ segir Benedikt.

Hann segir að það hafi verið áskorun að kynna nýja verðstefnu fyrir viðskiptavinum og útskýra hvers vegna kjörin væru að taka breytingum.

Óttaðist þú ekki að þið mynduð missa viðskiptavini til hinna bankanna?

„Eins og við fórum yfir á markaðsdegi bankans nýverið þá var við endurskipulagningu lánabókarinnar ekki aðeins verið að horfa til verðlagningar til hækkunar, heldur einnig til samsetningar og strúktúrs lána sem gat leitt af sér hagfelldari lánakjör. En jú, við misstum nokkra viðskiptavini. Það skipti hins vegar sköpum í samtölum okkar við viðskiptavini að upplýsa þá um hvaða lánakjör við gætum boðið þeim en á sama tíma benda þeim á aðra og hagstæðari kosti sem við gætum aðstoðað þá við eins og útgáfu skuldabréfa sem fjárfestar myndu kaupa. Ég tel hins vegar að til lengri tíma þá standi viðskiptasambönd sem báðir aðilar hafi hag af á traustari grunni en þau sem stofnað er til af öðrum ástæðum. Svo verða bankarnir að fara mjög varlega að mínum dómi við að niðurgreiða viðskiptasambönd því það eru ekki eðlilegir viðskiptahættir, skekkir núverandi samkeppni og fælir aðra frá því að fara inn á þann markað í samkeppni.

Við gátum ekki gengið að viðskiptavinum vísum með því að bjóða upp á betri kjör og urðum því að bjóða upp á virðisaukandi þjónustu og leysa úr flóknum viðfangsefnum fyrir þá. Viðskiptavinum hefur fjölgað mikið af þeim sökum, þeir sjá virði í því að skipta við Arion banka umfram aðra.

Við aðstoðuðum Iceland Seafood við að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum sem skráð eru í Kauphöll og breyttum því í erlenda fjármögnun með gjaldeyrisskiptasamningi. Að sama skapi höfum við verið að aðstoða fyrirtæki við að afla hlutafjár til vaxtar. Má þar nefna fyrirtæki á borð við Controlant.“

Controlant hefur verið í lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn Covid-19 fyrir lyfjarisann Pfizer en fyrirtækið býður upp á lausnir til að vakta lyf og matvæli í allri virðiskeðjunni.

Hófuð þið að vinna með Con­trolant áður en fyrirtækið landaði samningi við Pfizer?

„Fyrsta fjármögnun sem Arion kom að með Controlant var kláruð rétt áður en Covid-19 kom til sögunnar, en það voru eldri tengsl við félagið hjá bankanum.

Við komum líka að skráningu tölvuleikjaframleiðandans Solid Clouds á First North-hliðarmarkaðinn. Margir einstaklingar nýttu sér skattaafslátt sem býðst þeim sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum í að lágmarki þrjú ár.

Jafnframt komum við að skráningu Play á First North, hjálpuðum til við skráningu Íslandsbanka í Kauphöllina og komum að skráningu íslenskra eldisfyrirtækja sem fóru á vaxtarmarkað í kauphöllinni í Noregi.

En þegar það er góður kostur fyrir viðskiptavini okkar þá nýtum við efnahagsreikninginn. Arion banki veitti til að mynda Norðuráli græna fjármögnun til að fjárfesta í nýrri framleiðslulínu í steypuskála sem kostar tæplega 16 milljarða króna. Það er ákaflega spennandi verkefni. Norðurál mun framleiða verðmætari vörur og þar með auka útflutningsverðmæti frá Íslandi og draga úr kolefnisspori sínu.

Við höfum auk þess unnið fyrir lyfjageirann og höfðum milligöngu um fjármögnun á Alvotech fyrr á árinu og komum að skráningarferli félagsins.“

Aðspurður segir hann að Arion banki hafi haft milligöngu um erlendan fjárfesti fyrir Alvotech á vormánuðum.

15 milljarðar að utan

Það kemur á óvart að þið komuð með erlendan fjárfesti að borðinu. Ég hefði haldið að íslenskur banki myndi frekar hafa milligöngu um íslenska fjárfesta fyrir fyrirtækið?

„Arion banki hefur haft milligöngu um hátt í 15 milljarða af áhættufé til íslenskra verkefna frá erlendum fjárfestum á þessu ári. Sum verkefni eru þess eðlis í stærð eða flækjustigi að það er mjög erfitt að klára þau hérlendis,“ segir hann.

Benedikt segir að skipta megi erlendri fjárfestingu á Íslandi í þrjú tímabil og að nýtt tímabil hafi nýlega hafist. Fyrst hafi erlend fjárfesting hér landi byggst á skattaívilnunum og fjárfestingasamningum við íslenska ríkið. Álverin séu dæmi um slíkt. Annað tímabilið hafi einkennst af því að fjárfestar sáu tækifæri skömmu eftir fjármálahrunið árið 2008 í því að krónan og hlutabréf hafi verið lágt verðlögð. „Þriðja tímabilið hófst árið 2019. Þá hófu erlendir fjárfestar að sækja hingað á sömu forsendum og þegar fjárfest er í öðrum Norður-Evrópulöndum. Það var nýtt fyrir Ísland.“

Af hverju erum við komin í þá stöðu?

„Hagkerfið stendur styrkum fótum og fer hratt vaxandi.“

Blaðamaður hefur orð á því að Benedikt hafi verið óhræddur við að gera breytingar á framkvæmdastjórn Arion banka. Hann segir að það tengist því að viðskiptastefnunni hafi verið breytt. „Ráðning Ásgeirs Reykfjörð aðstoðarbankastjóra var mikilvæg. Hann var áður framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kviku banka en sá banki hafði lítinn efnahagsreikning. Þess vegna var Ásgeir alvanur að fjármagna verkefni með þátttöku fjárfesta. Sú þekking var eftirsóknarverð.“

Hvað hélstu að umbreyting á rekstri bankans tæki langan tíma?

„Við gerðum ráð fyrir að umbreytingin tæki nokkur ár. Þegar Covid-19 kom til sögunnar átti ég von á að vinnan myndi tefjast um ár eða svo. Þegar upp var staðið flýtti heimsfaraldurinn umbreytingu á bankanum og starfsfólki bankans tókst að aðlaga starfsemina hratt.“

„Efnahagur bankans er stór, en það gleymist að bankinn stýrir nánast sömu fjárhæð fyrir þriðju aðila, svo að slagkrafturinn er mjög mikill,“ segir Benedikt.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hvar eru nú tækifæri til hagræðingar í Arion banka?

„Það er alltaf hægt að gera betur. Við erum minnsti viðskiptabankinn af þessum þremur stóru. Af þeim sökum búum við yfir minni stærðarhagkvæmni en við njótum þess að bjóða upp á fleiri vörur og hafa þroskaðra vöruframboð. Efnahagur bankans er stór, en það gleymist að bankinn stýrir nánast sömu fjárhæð fyrir þriðju aðila, svo að slagkrafturinn er mjög mikill. Þá er Arion banki sá eini af stóru viðskiptabönkunum sem býður upp á eigin tryggingavörur og það gerum við fyrir tilstilli tryggingafélagsins Varðar. Til að vega upp á móti minni stærðarhagkvæmni höfum við farið þá leið að samþætta reksturinn í meiri mæli. Nýta stoðsvið bankans til að veita viðskiptaeiningum og dótturfélögum okkar, Verði og Stefni, þjónustu og ná þannig fram stærðarhagkvæmni. Á þeim vettvangi liggja fjölmörg tækifæri.“

Benedikt áréttar að jafnvel þótt Arion banki sé sá minnsti af stóru bönkunum þremur hafi starfsfólk bankans náð miklum árangri og bankinn verið umsvifamestur í miðlun hlutabréfa sex ár í röð og stærstur í ýmsu er varðar lífeyrissparnað. Að sama skapi hafi Vörður vaxið hratt og aukið markaðshlutdeild frá því að hann varð að fjórðu tekjustoð bankans árið 2019. Horft sé til þess að tryggingastarfsemin haldi áfram að vaxa ásamt því að þjónusta viðskiptavini Varðar með aðra fjármálaþjónustu í meiri mæli.

Hinar þrjár tekjustoðir Arion banka eru viðskiptabankastarfsemi, fyrirtækja- og fjárfestingabankasvið og markaðir.

Horft til norðurslóða

Arion banki horfir nú til vaxtar á norðurslóðum. Hvað geturðu sagt um það?

„Við Íslendingar eigum margt sameiginlegt með nágrönnum okkar á því svæði, eins og veðurfar, menningu og að atvinnulífið treystir á náttúruauðlindir. Norðurslóðir eru í mikilli sókn. Landsframleiðsla á mann í Færeyjum er til dæmis nú hærri en í Danmörku. Það má einkum rekja til mikils vaxtar í fiskeldi.

Það eru mikil tækifæri á Grænlandi. Fjöldi leyfa til námuvinnslu hefur verið gefinn út en þar liggur mikið af sjaldgæfum og verðmætum málmum.“

Hvernig er landslagið fyrir erlenda banka að hefja starfsemi í þessum tveimur löndum? Eru erlendir bankar fyrir á fleti, eins og til dæmis danskir?

„Þarna eru staðbundnir bankar. Danir hafa lítil umsvif á svæðinu. Íslenskir bankar hafa margt fram að færa á svæðinu. Fjármálaumhverfið hér á landi er þróað. Þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð höfum við gott aðgengi að erlendum fjármálamörkuðum og mikla þekkingu á helstu fjármálaafurðum. Það nýtist erlendum viðskiptavinum vel. Að eiga viðskipti við íslenskan banka er sambærilegt við það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Það vinnur með okkur auk góðrar þekkingar á sjávarútvegi.“

Hvernig ætlið þið að afla verkefna á norðurslóðum?

„Stefnt er á að sinna þeim atvinnuvegum sem við þekkjum vel og styðja okkar viðskiptavini í verkefnum sem þeir fara í á svæðinu. Mörg íslensk fyrirtæki munu koma að þeirri uppbyggingu sem fram undan er.“

Hagkerfið er á góðum stað

Umhverfið fyrir rekstur fjármálafyrirtækja er hagfellt á Íslandi og lítur út fyrir að verða það áfram, að sögn Benedikts. Hann bendir á að rekstur banka fylgi hagsveiflum og velgengni viðskiptavina.

„Íslenska hagkerfið er á góðum stað,“ segir Benedikt. „Þjóðin er ung, yngri en víða annars staðar í Evrópu. Umsvifin í efnahagslífinu fara því vaxandi af lýðfræðilegum ástæðum og með tilkomu innflytjenda. Á sama tíma er þjóðhagslegur sparnaður hár. Erlendar eignir þjóðarbúsins eru meiri en sem nemur skuldum og gjaldeyrisvaraforðinn er ríkulegur,“ segir hann.

Benedikt bendir á að hefðbundið sé á meðal ungra þjóða að þjóðhagslegur sparnaður sé neikvæður, því það þurfi að taka mikið af lánum erlendis til að fjármagna uppbyggingu. „Hagkerfið hér er sjálfbært og lífeyrissjóðir geta dreift áhættu með því að fjárfesta erlendis án þess að það hreyfi mikið við gengi krónu.

Það er erfitt að finna hagkerfi í svo góðri stöðu. Víða erlendis eru seðlabankar með útblásinn efnahagsreikning vegna magnbundinnar íhlutunar. Það verður þrautin þyngri að vinda ofan af þeirri stöðu. Seðlabanki Íslands hefur lítið gripið til þess úrræðis. Í því ljósi mun efnahagslífið á Íslandi líklega eflast og vaxa hraðar en víða annars staðar. Fram undan í efnahagslífinu erlendis er mikil aðlögun á efnahagsreikningum seðlabanka og ríkja, sem mun draga úr hagvexti.“

„Eins er eflaust ekki langt í að fiskeldi verði ein verðmætasta útflutningsgrein landsins,“ segir Benedikt.

Er ástæða til að óttast að sá vandi, að vinda ofan af efnahagsreikningi erlendra seðlabanka, muni smitast til Íslands, sem er lítið opið hagkerfi?

„Það getur gert það, en hafa ber í huga að okkar viðskiptakjör eru afar hagstæð um þessar mundir. Verð á sjávarafurðum er hátt og veiðin góð. Auk þess er orkuverð hátt, sem þjóðin nýtur góðs af.

Ferðaþjónusta glímir við tímabundna erfiðleika. Hún mun ná vopnum sínum á nýjan leik. Að því sögðu er ekki nægilega mikið rætt um hve mikilvæg Icelandair og Play eru fyrir íslenskt efnahagslíf. Í ljósi þess að viðskiptamódelið byggir á því að flytja farþega yfir Norður-Atlantshafið með Ísland sem tengimiðstöð, geta Íslendingar flogið beint til mun fleiri landa en fjöldi íbúa landsins getur staðið undir. Það hefur jafnframt verið mikil lyftistöng fyrir fiskútflutning.

Norður-Atlantshafsleiðin er ein sú arðbærasta sem um getur í heiminum. Nú njóta Icelandair og Play þess að stóru erlendu flugfélögin eiga erfitt með að auka framboð sitt. Það eru því horfur á að íslensku félögin geti náð umtalsverðri markaðshlutdeild á þessari flugleið á næstu árum. Þess vegna er brýnt að framkvæmdir við stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar gangi vel.

Eins er eflaust ekki langt í að fiskeldi verði ein verðmætasta útflutningsgrein landsins. Kolefnisspor framleiðslunnar er minna en víðast hvar, þegar kemur að framleiðslu á dýrapróteini og nýting á fóðri er ein sú mesta sem um getur. Fiskeldi hefur notið góðs af norskri fjárfestingu frá fyrirtækjum sem þekkja vel til í atvinnugreininni. Það hefur aukið þekkingu á starfseminni hér á landi.“

Benedikt tók við sem forstjóri árið 2019

Benedikt, sem er fæddur árið 1974, tók við starfi bankastjóra Arion banka 1. júlí 2019. Benedikt hóf störf hjá FBA (síðar Íslandsbanka) árið 1998, sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarási, var framkvæmdastjóri markaðs­viðskipta hjá FL Group og framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka. Benedikt starfaði um tíma sem ráðgjafi hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann sat í stjórn Kaupþings á árunum 2016-2018 og var ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka. Hann tók sæti í stjórn Arion banka í september 2018 og var í stjórn bankans þar til hann tók við starfi bankastjóra.

Benedikt útskrifaðist með C.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1998. Hann er kvæntur Ragnheiði Ástu Guðnadóttur næringarfræðingi og eiga þau fjögur börn.