Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino‘s á Ísland og áður hluthafi í pítsakeðjunni, segir að það sé of snemmt að segja um hvort hann hafi áhuga kaupa fyrirtækið af Domino‘s í Bretlandi. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins.

Fram kom á vef Fréttablaðsins í morgun að breska félagið Domino‘s Pizza Group hafi í hyggju að selja rekstur sinn á Íslandi og öðrum löndum utan Bretlands. Fram kom að félagið væri ekki ákjósanlegur eigandi að veitingastöðum utan Bretlands.

Birgir var upplýstur um fyrirhugaða sölu í gær.

„Það er klárt að það er tækifæri hérna og þetta er flott fyrirtæki. Þannig að ég ætla aðeins að leyfa þessu að spilast út,“ segir hann í samtali við Ríkisútvarpið.

Birgir Örn segir að söluferlið muni taka tíma. „Aðalatriðið fyrir Íslendinga er að það eru engar breytingar í vændum. Við seldum okkur til þeirra fyrir þremur árum síðan. Það voru engar breytingar þá og ég sé ekki neinar breytingar í farvatninu núna heldur,“ segir hann.

„Aðalatriðið fyrir Íslendinga er að það eru engar breytingar í vændum.“

Ríkisútvarpið bendir á að Domino‘s hafi selt pítsur á Íslandi fyrir sex milljarða og hagnast um tæplega hálfan milljarð og spyr Birgi Örn hvers vegna Bretarnir vilji ekki eiga rekstur sem skili slíkum hagnaði.

„Þetta helst í hendur við hinar einingarnar sem þeir hafa verið að reka. Þeir hafa byggt upp heilt kerfi í kringum það. Og sá rekstur, sérstaklega í Noregi, hefur verið sérlega erfiður,“ svarar hann.