Lík­legt er að ó­vissan í kringum skulda­bréfa­út­boð flug­fé­lagsins WOW air spili þátt í því gengis­veiking krónunnar gagn­vart öðrum gjald­miðlum fór af stað. Þó sé hægt að leiða líkur að því að gengis­lækkunin hafi verið yfir­vofandi eftir sterka stöðu krónunnar undan­farin tvö ár. Þetta segir Kon­ráð S. Guð­jóns­son, hag­fræðingur Við­skipta­ráðs Ís­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið. 

„Krónan er búin að vera mjög sterk núna í tvö ár og verð­lag á Ís­landi með því allra hæsta sem gerist á meðan fram­leiðnin endur­speglar það ekki fylli­lega. Þá er ekki ó­eðli­legt að það gefi að­eins eftir,“ segir Kon­ráð. Ís­lenska krónan hefur lækkað á hverjum degi í septem­ber­mánuði og nemur lækkun hennar nú í kringum sex prósent. Evran er komin yfir 130 krónur – stendur í 132,54 þegar þessi frétt er skrifuð.

„Við höfum verið að sjá að við­skipta­af­gangur fer minnkandi, líf­eyris­sjóðir hafa verið að fjár­festa er­lendis, lítið hefur verið af flæði er­lends fjár­magns inn í landið og við erum með inn­flæðis­höft sem draga enn frekar úr því,“ segir Kon­ráð. Því komi í sjálfu sér ekki á ó­vart að krónan veikist og hafi því kannski bara verið tíma­spurs­mál hve­nær slíkt myndi gerast. Veikingin sé ekki svo gríðar­leg í sjálfu sér. „Sex prósent er ekkert ó­eðli­legt fyrir gjald­miðil á stuttum tíma þótt þetta gerist ekki oft.“

Hugrenningaráhrif á tíu ára hrunafmæli

Blikur hafa verið á lofti undan­farna daga í ljósi um­ræðunnar um skulda­bréfa­út­boð WOW air. Fé­lagið leitar nú leiða til að tryggja að lág­marks­stærð yfir­standandi út­boðs, 5,5 milljarðar króna, verði náð. Greint var frá því í Markaðinum í dag að stjórn­endur og ráð­gjafar flug­fé­lagsins hefðu átt fund með banka­stjórum bankanna þriggja, Arion banka, Ís­lands­banka og Lands­bankans, vegna hugsan­legrar að­komu að út­boðinu. 

Sjá einnig: Biðla til bankanna

Kon­ráð segir of snemmt að tala um á­hrif út­boðsins á fjár­mála­um­hverfi hér á landi. Um sé að ræða get­gátur á þessu stigi en vissu­lega hafi tals­verðar hreyfingar átt sér stað á mörkuðum undan­farna daga. Hann kveðst hafa orðið var við á­kveðin hug­renningar­á­hrif í um­ræðunni, um að næsta hrun sé yfir­vofandi, og að sú um­ræða hafi magnast í ljósi þess að tíu ár eru liðin frá því að bankarnir hrundu.

Fréttablaðið/Anton Brink

Höfum ekki forsendur til að meta áhrifin

„Við megum ekki gleyma því að fjár­mála­kerfisk­rísur eru allt annars eðlis heldur en tví­sýnt á­stand í á­kveðnum at­vinnu­greinum. Þá má heldur ekki gleyma að hag­kerfið í heild er betur í stakk búið að takast á við það verði til dæmis minni hag­vöxtur og að­eins verri horfur,“ segir Kon­ráð og bendir á að skulda­staða og fjár­hags­legt bol­magn heimila, fyrir­tækja og hag­kerfisins í heild standi styrkari fótum. Búið sé að vinna vel úr skuld­setningu og endur­skipu­lagningu efna­hags­reikninga, allt frá heimilum til fyrir­tækja. 

„Það gefur okkur á­stæðu til að anda með nefinu. Svo verður þetta bara að koma í ljós. Það er allt­of snemmt að ör­vænta og fara í eitt­hvað tal um kreppu og þess háttar. Við höfum ekki for­sendurnar til þess,“ segir Kon­ráð að lokum.