Of mikið af innviðum á fjarskiptamarkaði eru í opinberri eigu, að sögn Orra Haukssonar, forstjóra Símans. „Hið opinbera er betra í að setja reglur en að reka innviði.“

Hann nefnir í því samhengi til að mynda Farice sem rekur netsæstrengi og Ljósleiðarann (áður Gagnaveitan) sem rekur ljósleiðarakerfi. Þetta kemur fram í viðtali við sjónvarpsþátt Markaðarins sem frumsýndur verður klukkan sjö í kvöld á Hringbraut þar sem Orri mun ræða sölu Símans á Mílu til franska innviðasjóðsins Ardians.

Ljósleiðarinn er keppinautur Mílu en fyrirtækið er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur sem er nánast að öllu leyti í eigu borgarinnar. Það þykir Orra vera óeðlileg samkeppni og nefnir að í ljós hafi komið að fyrirtækin hafi blandað saman fjármunum sem úr samkeppnisrekstri og rekstri sem sé háður einkaleyfi.

Orri segir að víða erlendis sé horft til þess að mikil samkeppni ríki á fjarskiptamarkaði þegar litið sé til þjónustu en að fyrirtæki vinni saman þegar kemur að rekstri innviða. „Hér höfum við farið þá leið að vera með samkeppni í innviðum líka,“ segir hann.

Að sögn Orra hafi verið unnið hratt við að samnýta fjarskiptainnviði þegar gosið í Geldingardölum hófst . „Neyðarlínan leiddi það verkefni,“ segir hann og nefnir að hægt væri að fara í samstarf víðar á landinu, svo sem með 5G-farsímakerfi og í ljósleiðaravæðingu því það séu svæði á Íslandi sem séu svo fámenn að erfitt sé að keppa á sviði fjarskiptainnviða í hagnaðarskyni.