Stjórnendur tveggja af stærstu lífeyrissjóðum landsins segja tímabært að endurskoða lögbundið hámark á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða. Þakið er orðið íþyngjandi fyrir lífeyrissjóðina sem hafa síaukna fjárfestingaþörf en takmarkað svigrúm til að ráðstafa fénu erlendis.

„Núverandi fyrirkomulag er orðið íþyngjandi fyrir lífeyrissjóði sem eru að leita leiða til að ávaxta lífeyri sinna félagsmanna með sem bestum hætti,“ segir Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, en hún telur löngu tímabært að taka reglurnar um þak á erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða til gagngerrar endurskoðunar. „Og helst með það fyrir augum að afnema þær alveg,“ bætir hún við.

Lögum samkvæmt þurfa lífeyrissjóðir að takmarka gjaldmiðlaáhættu sína með því að tryggja að minnst 50 prósent af heildareignum þeirra séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingarnar. Hlutfall erlendra eigna má því ekki fara yfir þetta hámark.

„Fjárfestingarkostir innanlands eru takmarkaðir og þess vegna mun núverandi fyrirkomulag jafnt og þétt auka fjárfestingaráhættu.“

Nýjustu tölur fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, sem ná til loka september á síðasta ári, sýndu að hlutfall erlendra eigna væri komið yfir 40 prósent hjá þremur stærstu lífeyrissjóðunum. Hlutfall erlendra eigna hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins með heildareignir upp á tæplega 1.100 milljarða króna, nam rúmlega 43 prósentum í lok september. Hlutfall Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, næststærsta sjóðsins, nam tæplega 43 prósentum og hjá Gildi lífeyrissjóði var það komið upp í 40 prósent.

Lífeyrissjóðir hafa að jafnaði þurft að ráðstafa 300 milljörðum króna á ári í fjárfestingar og hefur sú tala hækkað frekar en hitt samhliða auknum uppgreiðslum á sjóðfélagalánum. Harpa bendir á að lífeyrissjóðakerfið hafi vaxið ört – umfang sjóðanna jafngildi um tvöfaldri landsframleiðslu – og það muni halda áfram að vaxa.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Fjárfestingarkostir innanlands eru takmarkaðir og þess vegna mun núverandi fyrirkomulag jafnt og þétt auka fjárfestingaráhættu lífeyrissjóðanna,“ segir Harpa. „Til að geta dreift áhættunni með sem skynsamlegustum hætti væri því best fyrir lífeyrissjóðina að vera ekki með sérstök höft á því hvar fjárfest er hverju sinni.“

Komast ekki mikið hærra

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignarstýringar Gildis lífeyrissjóðs, telur einnig tímabært að hækka leyfilegt hámark eignar lífeyrissjóða í erlendri mynt. Að minnsta kosti þurfi að taka umræðuna um það. Innan sjóðanna hefur að undanförnu verið nefnt að eðlilegt væri að hámarkið yrði hækkað í 60 prósent.

„Þó að hámarkið sé í dag samkvæmt lögum 50 prósent er erfitt fyrir lífeyrissjóði að nýta það svigrúm til fulls.“

„Þó að hámarkið sé í dag samkvæmt lögum 50 prósent er erfitt fyrir lífeyrissjóði að nýta það svigrúm til fulls án þess að eiga það á hættu að skammtímasveiflur á gengi krónunnar og verðþróun á mörkuðum ýti hlutfalli eigna í erlendri mynt upp fyrir lögbundið hámark,“ segir Davíð.

Þá segir Davíð að reynslan sýni að verðsveiflur yfir tiltölulega stutt tímabil, jafnvel innan einstakra daga, geta haft umtalsverð áhrif á hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða. Það sé því í reynd erfitt fyrir sjóðina að fara mikið upp fyrir 40 til 45 prósenta hlutfall erlendra eigna þegar lögbundna hámarkið er 50 prósent.

Þetta á meðal annars við hjá Gildi þar sem hlutfall erlendra eigna hefur farið mjög hækkandi á undanförnum árum. Sjóðurinn hefur haft þá stefnu að dreifa áhættu sinni í auknum mæli út fyrir landsteinana, samhliða auknu innstreymi í sjóðinn að sögn Davíðs.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignarstýringar Gildis lífeyrissjóðs.

„Á undanförnum misserum hefur hlutfall erlendra eigna sjóðsins farið um og yfir 40 prósent og við þær aðstæður er því ekki mikið svigrúm til staðar til að bæta við erlendar fjárfestingar. Þessar takmarkanir geta því verið óheppilegar ef góð tækifæri og aðstæður eru annars fyrir hendi til að bæta við fjárfestingar erlendis,“ útskýrir Davíð.

Á heildina litið er hlutfall erlendra eigna í samtryggingardeildum lífeyrissjóða komið yfir 38 prósent samkvæmt áðurnefndum tölum fjármálaeftirlitsins. Það hefur hækkað um meira en 4 prósentustig frá áramótum.