Arctica Finance, ráðgjafar WOW air, auk fulltrúa fjárfestingabankasviðs Arion banka róa nú öllum árum að því að fá einkafjárfesta, innlenda og erlenda, auk lífeyrissjóða með háar fjárhæðir að borðinu til þess að bjarga rekstri WOW air fyrir horn á mettíma.

Viðmælendur blaðsins sem þekkja til óttast að kraftaverk þurfi til að Skúla Mogensen, eiganda WOW, og félögum takist ætlunarverkið á þeim skamma tíma sem er til stefnu. Fáir, ef einhverjir, einkafjárfestar séu líklegir í þá vegferð með jafn skömmum fyrirvara án þess að fá tækifæri til þess að grandskoða rekstur félagsins. Ljóst er að tíminn vinnur ekki með félaginu, enda hefur Samgöngustofa, sem veitir flugrekstrarleyfi, fylgst náið með framvindu mála. Skúli fundaði með Samgöngustofu í gær. WOW air skuldar um 200 milljónir dollara – skuldabréfaeigendum, Arion banka, ISAVIA ohf., leigusölum, lífeyrissjóðum og öðrum viðskiptavinum – en sú upphæð samsvarar um 24 milljörðum króna. Af þeirri upphæð eru tæplega tveir milljarðar vegna skuldar við ISAVIA. Félagið er skuldbundið til að hafa ávallt eina vél úr flota sínum á Keflavíkurflugvelli til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Sú hugmynd hefur verið viðruð af forsvarsfólki WOW að ISAVIA gefi eftir hluta skuldarinnar.

Ummæli ráðamanna í gær gefa ekki tilefni til þess að ætla að stjórnvöld grípi inn í með beinum hætti. „Ég tel það ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur eins og þennan,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í gær. WOW air tapaði 22 milljörðum á síðasta ári.

Viðmælendur blaðsins óttast að sú staðreynd að tvær vélar úr flota WOW voru kyrrsettar í gær með tilheyrandi truflun á flugi hafi haft gríðarleg áhrif. Þær fregnir hafi ratað í alþjóðlega fjölmiðla og umkvartanir óánægðra farþega sömuleiðis.