Oddeyrin, nýtt skip í flota Samherja, lagðist að bryggju við Akureyri í dag. Skipið er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, en hægt verður að flytja afla lifandi til hafnar.

Þegar Samherji keypti skipið var það hefðbundið uppsjávarskip, en því hefur verið breytt fyrir bolfiskveiðar. Frá þessu er greint á vefsíðu Samherja.

Hjörvar Kristjánsson skipaverkfræðingur og verkefnastjóri á útgerðarsviði Samherja segir skipið á margan hátt flókið.„Já, þetta er nokkuð flókið skip, hérna er hægt að gera ýmislegt sem ekki er hægt að gera á öðrum fiskveiðiskipum.

Í fyrsta lagi getur það stundað hefðbundnar veiðar en stóra nýjungin er að um borð er búnaður til að dæla fiski um borð og geyma hann lifandi í alls sex tönkum skipsins. Í þessum tönkum er líka hægt að kæla fiskinn, ef hann er ekki fluttur lifandi til lands,“ er haft eftir Hjörvari umfjöllun á vefsíðu Samherja.

Enn á eftir að koma fyrir meiri tæknibúnaði fyrir í skipinu áður en það getur haldið til veiða, en það mun Slippurinn á Akureyri annast.

Ef allt gengur eftir í rekstri Oddeyrarinnar, þá mun aldur afla sem kemur til landvinnslu fara úr þremur til fimm dögum í nokkrar klukkustundir, að því er haft eftir Heiðdísi Smáradóttur, gæðastjóra Samherja fiskeldis.