Bandaríski vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital, sem hefur verið einn af stærstu hluthöfum Arion banka frá árinu 2017, seldi í gær um 2,3 prósenta hlut í bankanum fyrir jafnvirði um 3,8 milljarða króna.

Eftir söluna, samtals 40 milljónir hluta á genginu 94 krónur á hlut, heldur sjóðurinn á um 3,8 prósenta hlut sem gerir hann að sjötta stærsta hluthafa Arion.

Ozh-Ziff Capital hefur núna á undanförnum sex vikum – í þremur stórum viðskiptum – selt í bankanum sem nemur fyrir um samanlagt 9,7 milljarða króna en í byrjun desember á liðnu ári nam eignarhlutur sjóðsins um 9,9 prósentum.

Áður hefur Fréttablaðið greint frá því að sjóðurinn hafi þann 3. desember síðastliðinn hafist handa um losa um hluta sinn með sölu upp á 3,6 milljarða og um tveimur vikum síðar seldi hann á ný fyrir jafnvirði rúmlega 2,3 milljarða króna.

Och-Ziff Capital kom inn í hluthafahóp Arion banka vorið 2017 þegar sjóðurinn, ásamt tveimur öðrum erlendum vogunarsjóðum og fjárfestingabankanum Goldman Sachs, keypti samtals nærri 30 prósenta hlut í bankanum af eignarhaldsfélaginu Kaupþingi fyrir um 49 milljarða króna.

Auk Och-Ziff hafa aðrir erlendir fjárfestar, meðal annars Goldman og Lansdowne, hafa minnkað mikið við hlut sinn í Arion banka á sama tíma og íslenskir lífeyrissjóðir, eins og LSR, Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, hafa bætt verulega við eignarhlut sinn í bankanum.

Samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða á opinberum lista yfir stærstu hluthafa bankans nemur orðið um 35 prósentum.

Gildi er annar stærsti hluthafi Arion banka með 9,92 prósenta hlut á meðan Lífeyrissjóður verslunarmanna er skráður fyrir tæplega 7,5 prósetna hlut. Langsamlega stærsti hluthafinn er eftir sem áður bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital með rúmlega 23,2 prósenta hlut.

Hlutabréfaverð bankans, sem fór lægst í 51 krónu á hlut þann 24. mars síðastliðinn, hefur hækkað mikið á undanförnum mánuðum og stendur nú í 95,4 krónum á hlut við lokun markaða í dag.

Gengi bréfa félagsins hækkuðu um 0,3 prósent í Kauphöllinni í dag í um 450 milljóna króna veltu. Markaðsvirði bankans er 165 milljarðar.