Bandaríski vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital, næst stærsti hluthafi Arion, hefur minnkað hlut sinn í bankanum sem nemur rúmlega 2,3 prósentum og selt fyrir jafnvirði tæplega 3,6 milljarða króna, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Eftir viðskiptin, sem fóru fram eftir lokun markaða í gær og Fossar markaðir höfðu umsjón með, nemur eignarhlutur sjóðsins í Arion banka um 7,6 prósentum og er hann nú orðinn þriðji stærsti hluthafinn.

Tilkynnt var um viðskipti upp á 40 milljónir hluta að nafnverði í Arion banka í Kauphöllinni í morgun á genginu 89,5 krónur á hlut. Samkvæmt heimildum Markaðarins voru kaupendur að bréfunum breiður hópur fagfjárfesta.

Och-Ziff Capital kom inn í hluthafahóp Arion banka vorið 2017 þegar sjóðurinn, ásamt tveimur öðrum erlendum vogunarsjóðum og fjárfestingabankanum Goldman Sachs, keypti samtals nærri 30 prósenta hlut í bankanum af eignarhaldsfélaginu Kaupþingi fyrir um 49 milljarða króna.

Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðurinn, sem heldur á bréfunum í gegnum félagið Sculptor Capital Management, selur í Arion banka frá því hann kom inn í hluthafahóp bankans.

Erlendir fjárfestar, meðal annars einnig Goldman og Lansdowne, hafa minnkað nokkuð við hlut sinn í Arion banka á sama tíma og íslenskir lífeyrissjóðir, eins og LSR, Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, hafa bætt verulega við eignarhlut sinn í bankanum.

Gildi er í dag annar stærsti hluthafi Arion banka með 9,92 prósenta hlut en langsamlega stærsti hluthafinn er eftir sem áður bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital með rúmlega 23,2 prósenta hlut.

Hlutabréfaverð bankans, sem fór lægst í 51 krónu á hlut þann 24. mars síðastliðinn, hefur hækkað mikið á undanförnum mánuðum og stendur nú í 90 krónum á hlut. Markaðsvirði bankans er um 157 milljarðar króna.

Hagnaður Arin banka nam 6,7 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við 3,9 milljarða á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 8,3 prósent.