Óbundin innlán heimilanna hafa aukist um 18 prósent frá áramótum, eða samtals um 95 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands. Óbundin innlán námu samtals 623 milljörðum króna í lok október, samanborið við 528 milljarða króna í byrjun árs, og hafa aldrei verið meiri í krónum talið samkvæmt tölum Seðlabankans sem ná aftur til ársins 2003.

Fjallað var um mikla aukningu á óbundnum innlánum heimilanna í Markaðinum í haust. Þar sagði Valdimar Ármann, sérfræðingur í markaðsviðskiptum hjá Arctica Finance, að óbundin innlán gætu leitað í áhættusamari fjárfestingar þegar fram í sækir.

„Ef það þarf ekki að ganga á sparnaðinn til að halda uppi neyslu má sjá fyrir sér að hann muni á endanum leita í áhættusamari fjárfestingar þar sem raunávöxtunarmöguleikar innlánsreikninga eru afar takmarkaðir eins og er, og gefa neikvæða raunávöxtun eftir vaxtalækkunarferli Seðlabankans,“ sagði Valdimar.

Verðbólga hefur aukist frá því í vor og var 3,6 prósent í október. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði um 3,7 prósent að meðaltali fram á næsta ár en taki þá að hjaðna enda slakinn í þjóðarbúinu mikill.

Miðað við mælda verðbólgu er neikvæð raunávöxtun óbundinna innlána töluverð. Samkvæmt vaxtatöflum viðskiptabankanna voru nafnvextir á veltireikningum einungis 0,05 prósent og óbundnir bankareikningar, miðað við innlán sem eru innan við milljón krónur, báru einungis 0,25 prósenta vexti. Raunávöxtun verður því neikvæð um 3,35 til 3,55 prósent ef vextir og verðbólga verða áfram á sömu slóðum.

„Einhverjir munu kannski ekki átta sig almennilega á ávöxtuninni fyrr en þeir fá áramótayfirlitið. Það er fyrst núna sem tólf mánaða ávöxtun er að fara hratt niður og eftir tólf mánuði verður hún enn lakari. Þetta tekur tíma að síast inn,“ sagði Valdimar Ármann í umfjöllun Markaðarins í haust.