Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5 prósent. Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar sem birt var í morgun.

Nefndin segir langtímaverðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja hafa hækkað en verðbólguálag a skuldabréfamarkaði lækkað. Á alla mælikvarða séu langtímaverðbólguvæntingar enn yfir verðbólgumarkmiðinu. Þá hafi væntingar um verðbólgu til skamms tíma lítið breyst frá síðasta fundi peningastefnunefndar og því sé taumhald peningastefnunnar, eins og það mælist í raunvöxtum Seðlabankans, óbreytt frá fyrri fundi.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar kemur fram að samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum hafi nokkuð hægst á hagvexti á seinni hluta síðasta árs frá því sem hann hafði verið á fyrri hluta ársins. Hagvöxtur hafi verið 4,6 prósent á árinu öllu en í febrúarspá sinni hafi Seðlabankinn gert ráð fyrir að hann yrði 4,3 prósent. Nýlegar vísbendingar um efnahagsumsvif og af vinnumarkaði bendi enn fremur til þess að spenna í þjóðarbúskapnum haldi áfram að minnka.

Verðbólga var 3 prósent í febrúar og hefur hjaðnað frá því í desember síðastliðnum þegar hún mældist 3,7 prósent, að sögn peningastefnunefndarinnar. Vegur þar þyngst að dregið hefur úr áhrifum hækkunar innflutningsverðs vegna gengislækkunar krónunnar á haustmánuðum síðasta árs og að framlag húsnæðis til verðbólgu hefur minnkað. 

Þá bendir nefndir á að gengi krónunnar hafi hækkað um tæplega 3 prósent frá febrúarfundi peningastefnunefndar. Enn sé þó líklegt að verðbólga aukist eitthvað fram eftir ári en hvað verði sé háð niðurstöðu kjarasamninga sem ekki liggi fyrir.

„Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Hún ítrekar jafnframt að hún hafi bæði vilja og þau tæki sem þarf til þess að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við markmið til lengri tíma litið. Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum. 

Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, muni skipta miklu um hvort svo verði og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verði í lægra atvinnustigi.