Oaktree Capital Management virðist ætla að koma í veg fyrir endurreisn kínverska fasteignarisans Evergrande, sem kominn er í greiðsluþrot.

Oaktree, sem er móðurfélag Oaktree Acquisition Corp II sem sameinaðist Alvotech til skráningar á Nasdaq skömmu fyrir áramót, leysti nýlega til sín tvær eignir Evergrande í Hong Kong og Sjanghæ vegna vanskila á eins milljarðs Bandaríkjadala láni.

Oaktree Capital Management er einn elsti og reyndasti rekstraraðili vogunarsjóða sem sérhæfa sig í skuldum illa staddra fyrirtækja. Slíkir sjóðir eru gjarnan nefndir hrægammasjóðir (e. vulture funds). Oftast kaupa slíkir sjóðir skuldir fallinna eða illa staddra fyrirtækja en Oaktree var hins vegar lánveitandi Evergrande gegn veði í tilteknum eignum.

Þrátt fyrir að fjárfestingatækifærum slíkra hrægammasjóða hafi fækkað mjög á Vesturlöndum veigra þeir sér flestir við að fjárfesta í Kína vegna óvissu um lagalega stöðu erlendra fjárfesta. Oaktree hefur verið einn örfárra sjóða sem slíkt gera. Í Financial Times kom nýlega fram að á meðan erlendir kröfuhafar Evergrande standi flestir frammi fyrir því að tapa nær öllum sínum kröfum, sem nema um 20 milljörðum Bandaríkjadala, fái Oaktree ekki aðeins sínar kröfur greiddar að fullu heldur hagnist líklega um 200 milljónir dala.

Einn viðmælandi FT sem þekkir vel til sagði: „Þeir eru ekki venjulegir lánveitendur. Þessir menn sérhæfa sig í að veita lán til þeirra sem geta ekki borgað í þeirri vissu að þeir muni leysa til sín veðin. Þetta fór nákvæmlega eins og þeir bjuggust við.“

Howard Marks, stofnandi og annar stjórnarformanna Oaktree, segist hins vegar sannfærður um að kínversk stjórnvöld muni virða réttindi kröfuhafa. Ekkert bendir til annars en að hann hafi rétt fyrir sér og þykir það benda til að kínversk stjórnvöld hafi gefið grænt ljós áður en Oaktree leysti eignirnar til sín.

Oaktree Capital Management er með veð í Inter Milan

Lánin til Evergrande eru ekki einu lánveitingar Oaktree til kínverskra fyrirtækja í vanda. Í fyrra lánaði Oaktree móðurfélagi Suning smásölufyrirtækisins, sem á ítalska knattspyrnustórveldið Inter Milan, 275 milljónir Bandaríkjadala en krórónaveirufaraldurinn hefur valdið Suning alvarlegum lausafjárvanda.

Skilmálar lánsins eru mjög strangir og fela meðal annars í sér að nái Inter Milan ekki inn í Meistaradeild Evrópu getur Oaktree gjaldfellt lánið og leyst knattspyrnufélagið til sín. Inter hefur verið rekið með miklu tapi undanfarin ár en situr samt á toppi ítölsku deildarinnar um þessar mundir, sem gefur öruggt sæti í Meistaradeildinni.