Alþingi

Óábyrgt að búast við lengsta hagvaxtartíma

Að mati SA þarf að tryggja þarf aukinn afgang ríkissjóðs á meðan gott er í ári til að skapa svigrúm þegar halla fer undan fæti. Vísbendingar séu um að það sé að hægjast á hagkerfinu. Lítið þurfi út af að bregða til að afgangurinn verði minni.

Þrjár fjármálaáætlanir hafa verið lagðar fyrir þingið á jafnmörgum árum. Samtök atvinnulífsins telja margt athugavert í þeirri nýjustu.

Samtök atvinnulífsins (SA) telja gert ráð fyrir of litlum rekstarafgangi í nýrri fjármálastefnu sem liggur fyrir á Alþingi. Að auki setja samtökin út á hve löngu hagvaxtarskeiði er búist við í stefnunni og að ekki séu dregnar upp aðrar mögulegar sviðsmyndir. Þetta er meðal þess sem segir í umsögn SA um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.

„Þetta er þriðja fjármálastefnan á jafnmörgum árum. Í raun er ekki mikil breyting frá fyrri stefnum en það sem einkennir þær allar er að gengið er út frá þeirri forsendu að hér verði eitt lengsta hagvaxtarskeiði sem við höfum upplifað í áratugi. “ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Í stefnunni er gert ráð fyrir því að hagvöxtur haldi áfram til ársins 2022 en það myndi þýða að hagvaxtartímabilið nú teygði sig yfir ellefu ár. Almennt þá hafa hagvaxtarskeið á Íslandi varað í sex til sjö ár.

Undanfarnar vikur hefur hagkerfið sýnt viss merki þess að hjól hagkerfisins snúist aðeins hægar en áður. Hækkandi launakostnaður hefur haft áhrif hjá mörgum fyrirtækjum og spár nú gera ráð fyrir minni hagvexti en undanfarin ár.

„Það eru vísbendingar um að hér sé að hægja mjög hratt á hagkerfinu. Sé hagvöxturinn settur í samhengi við hinn agnarsmáa afgang sem gert er ráð fyrir þá má lítið út af bregða áður en við erum í hallarekstri.“

Í umsögn SA eru settar fram sviðsmyndir sem sýna afkomu ríkissjóðs með tilliti til mismunandi hagvaxtarforsendna. Verði hann til að mynda prósentustigi minni en stefnan gerir ráð fyrir má áætla að afgangur verði helmingi minni.

„Það er mikilvægt að aðhalds sé gætt á tímum uppgangs. Það er óábyrg stefna að búa ekki betur í haginn því það mun margborga sig þegar harðnar á dalnum. Fjármálastefnan nú gerir meira að segja ráð fyrir minni afgangi en sú fyrri sem er gagnrýnivert,“ segir Ásdís.

Hún segir einnig gagnrýnivert hversu lítil áhersla sé lögð á að draga úr umsvifum hins opinbera þó þau séu ein þau mestu meðal OECD. Ísland sé háskattaríki og stjórnvöld verði að skapa svigrúm til að lækka skatta.

„Aukin útgjöld eru ekki ávísun á betri þjónustu. Það skiptir auðvitað máli hvernig er farið með skattfé landsmanna. Illa nýtt skattfé er ekkert annað en sóun á fjármagni og miður að sjá stjórnmálamenn kalla sífellt eftir auknum útgjöldum en gleyma eftirfylgninni. Það er eitt af því sem við köllum eftir í væntanlegri fjármálaáætlun,“ segir Ásdís.

Þá setur SA út á útfærslu á reglum um opinber fjármál. Telja þau gagnrýnivert að afkomureglan sem stjórnvöld horfa til leiðrétti ekki fyrir hagsveiflunni. „Í núverandi mynd tryggir afkomureglan ekki það aðhald sem þarf á tímum uppgangs,“ segir Ásdís.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Alþingi

Erlend félög fælast mikinn kostnað

Alþingi

Ný kortalög gætu sparað neytendum yfir milljarð

Innlent

Marel hækkað um 29 prósent frá áramótum

Auglýsing

Nýjast

Ásgeir: „Bitnar verst á þeim sem síst skyldi“

Bjarnheiður segir boðun verkfalla veruleikafirrta leikfléttu

Skotsilfur: Línur að skýrast

ISI sameinar dótturfélög í Suður-Evrópu

Reiknað með 1,7 prósent hagvexti í ár

Laun myndu hækka um allt að 85 prósent

Auglýsing