NN er fyrst og fremst gagnlegt til þess að velja staðsetningu (location) fyrir upptöku á efni en vefkerfið er einnig markaðstorg fyrir birgja sem eru að bjóða þjónustu sína í kvikmyndaframleiðslu svo sem ljósmyndara, gisting, bílaleigur, bílstjóra, búningahönnuði og allt þar á milli. Þetta gefur til að mynda svæðum eins og Vestfjörðum og Austurlandi miklu meira vægi þegar það kemur að því að velja staðsetningu fyrir upptöku á efni þar sem birgjar ná að koma sér á framfæri.

Líkja má NN við airbnb þar sem fólk leigir íbúðina sína á markaðstorgi og fær greitt í gegnum vefkerfið. Vefkerfið tryggir greiðslur og að staðið sé við samninga og vottar þá sem hyggjast veita þjónustu í kerfinu.

Það að geta valið tökustaði án þess að ferðast, gengið frá dagskrá og ráðið fólk í verkið sparar ferðalög og þar af leiðandi tíma og er mun umhverfisvænna.

Spakur Finance fjármagnar verkefnið og inn í hluthafahópinn eru kominn Sena ehf. og Dagur Jónsson sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Iceland Personal Tours.

Í tilkynningu frá Spak Finance segir að um byltingu sé að ræða og að þessi geiri sé mjög arðbær. Ávöxtunarkrafan á svona verkefni sé há þar sem um nýjung sé að ræða, en ef hógværar áætlanir gangi eftir verði arðsemi fjárfestingarinnar 41,55 prósent.

Polarama er stofnað af Kiddu Rokk Þórisdóttur og Steinarri Loga Nesheim. Bæði hafa þau yfir tuttugu ára reynslu í greininni.  Meðeigandi þeirra, Guðmundur Stefán Þorvaldsson, leiðir þróun Northerners Network en hann býr yfir 17 ára reynslu í hugbúnaðargerð og var áður tæknistjóri Hugsmiðjunnar. Hjá þeim starfar öflugt teymi forritara og hönnuða. Salvar Þór Sigurðarson býr yfir gríðarlegri reynslu sem upplifunarhönnuður (e. UX/UI designer) og Hans Alan Tómasson, sem starfaði áður sem útlitshönnuður hjá CCP, er efnishönnuður kerfisins.