Samtök atvinnulífsins munu veita hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2021 og er rennur fresturinn til að skila inn tilnefningum út þann 16. nóvember næstkomandi. Þó verður breytt fyrirkomulag og verða verðlaunin nú veitt í þremur flokkum.

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, forstöðumaður samkeppnissviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að með nýjum áherslum vilji samtökin leggja áherslu á nýja nálgun þegar kemur að umræðu um jafnréttismál. „Hvað varðar kynjajafnrétti er þó mikilvægt að hafa í huga að nálgunin er ekki lengur tvívíð, kynin eru fleiri auk þess sem jafnréttið er líka mikilvægt óháð kynhneigð og fleiri þáttum,” segir hún og bætir við að Samtökin leggi einnig áherslu á það að einstaklingar með fulla starfsgetu fái tækifæri til að taka fullan þátt í atvinnulífinu. Þá er einnig horft til fjölmenningar og með hvaða hætti sé tekið á móti starfsmönnum sem hafa ekki íslensku sem móðurmál og koma rá öðrum menningarheimi.

„Ég held að það sé óhætt að segja að þessir flokkar séu nátengdir mörgum af þeim áskorunum sem hafa verið ofarlega á baugi í umræðunni á undanförnum misserum. SA vilja sannarlega leggja sitt af mörkum til að veita þeim sem standa sig vel verðskuldaða athygli á sama tíma og við hvetjum aðra til góðra verka. Ísland er á margan hátt mjög framarlega þegar kemur að þessum málum en við vitum öll að lengi má gott bæta,” segir Ingibjörg og bætir við að umræða um jafnréttismálin sé nátengd umræðu um sjálfbærni.

„Það má heldur ekki gleymast að umræðan um jafnréttismálin er hluti af umræðu um sjálfbærni atvinnulífsins. Sjálfbærnin byggir jú á þremur stoðum sem eru Umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir. Umræðan um jafnrétti og fjölbreytileika er náteng bæði félagslegum þáttum sjálfbærninnar og stjórnunarháttum. Það er mikilvægt að umræðan um sjálfbærni nær til svo fjölmargra þátta annarra en bara umhverfisþátta,” bætir Ingibjörg við.