Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kolofon.

Davíð Arnar Baldursson hóf störf sem grafískur hönnuður fyrr á þessu ári. Hann útskrifaðist með B.A. gráðu frá Listaháskóla Íslands og hefur síðan unnið á auglýsingastofunni Brandenburg. Davíð er margverðlaunaður hönnuður, bæði fyrir verk sín hjá Brandenburg og verk sem hann hefur unnið sjálfstætt. Hann hlaut meðal annars aðalverðlaun FÍT, Félags Íslenskra Teiknara, árið 2020 fyrir hönnun sína á Fever Dream, hljómplötu hljómsveitarinnar Of Monsters and Men.

Rúna Dögg Cortez hefur starfað hjá Kolofon frá því sumarið 2021 og hefur stýrt verkefnum og stofunni síðan með mjög góðum árangri. Hún tekur sæti í framkvæmdastjórn þar sem hún situr með þremur stofnendum stofunnar; Atla Þór Árnasyni, Herði Lárussyni og Samúel Þór Smárasyni. Með þessum breytingum tekur hún einnig upp titilinn hönnunarstofustjóri.

„Undanfarna mánuði höfum við unnið að því að mynda okkur skýrari stefnu um hvernig verkefni við teljum að kröftum stofunnar sé best varið. Það er, í hverju erum við góð og hvað finnst okkur gaman að gera. Drauma uppskriftin af okkar bestu verkefnum eru mátuleg blanda af þessu tvennu … og auðvitað góð og náin sambönd við viðskiptavinina okkar.” segir Rúna.

„Sérþekking stofunnar liggur sem áður í ásýndarhönnun og upplýsingaframsetningu. Með lítinn og þéttan hóp sem vinnur samhliða að hönnun og forritun höfum við haft tækifæri að búa til lausnir sem hafa ekki sést áður hér á Íslandi. Okkur er það ekki síður hugleikið að hlutverk stofu eins og okkar er ekki bara að framleiða verkefni, heldur skiptir jafnvel enn meira máli að vera góðir ráðgjafar viðskiptavina okkar.”

Meðal helstu viðskiptavina Kolofon má nefna Vegagerðina, Isavia, Ríkislögreglustjóra, Strætó, Mosfellsbæ, Reykjavíkurborg, Fjölmenningarsetrið, Landsvirkjun, Keahotels og fleiri.