Nýlega var gengið frá stofnun nýs fjárfestingafélags, sem er með vel á annan milljarð króna í hlutafé og heitir Incrementum, en hluthafahópurinn samanstendur af fjársterkum einkafjárfestum og Kviku banka, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Félagið mun fjárfesta í skráðum félögum í Kauphöllinni en fjárfestingastarfsemi Incrementum hófst fyrir fáum vikum. Fjárfestingafélagið á í samstarfi við Kviku en eignarhlutur bankans í Incrementum nemur tæplega tíu prósentum.

Stofnendur félagsins, sem jafnframt stýra starfseminni, eru þeir Ívar Guðjónsson, Baldvin Valtýsson og Smári Rúnar Þorvaldsson, sem eru meðal annars eigendur að ráðgjafafyrirtækinu Akrar Consult. Störfuðu þeir allir saman á sínum tíma hjá Landsbankanum á árunum fyrir fall fjármálakerfisins.