Eins manns rusl er annars gull, segir máltækið. Þessa sér nú merki meðal annars í tískuheiminum, þar sem mestur vöxtur er í verslun með notuð, eða endurnýtt, föt.

Í Bandaríkjunum hefur markaður með notuð föt vaxið 21 sinni hraðar en sala á nýjum varningi síðustu þrjú árin. Í dag er þetta markaður sem veltir 24 milljörðum Bandaríkjadala og búist er við að um miðjan næsta áratug verði veltan um 51 milljarður dala.

Ekki er ýkja langt síðan mörgum fannst einhver skömm að því að kaupa notuð föt. Fólk verslaði í búðum góðgerðarsamtaka og öðrum verslunum sem seldu notuð föt ef það átti engra annarra kosta völ.

Þessir tímar eru liðnir. Endursölumarkaður fyrir notaðan tískuvarning blómstrar og nú vilja allir Lilju kveðið hafa.

Á vefsíðum World Economic Forum er haft eftir Neil Saunders, framkvæmdastjóra og markaðsgreinanda hjá tískuvefversluninni thredUP, að söluaukning notaðs fatnaðar hafi verið ævintýraleg samanborið við ný föt.

„Þar sem markaðurinn svarar einstaklega vel kröfum neytenda um fjölbreytni, verðgildi og sjálfbærni reiknum við með áframhaldandi miklum vexti.“

Rannsóknir threadUP sýna að hlutfall þeirra neytenda sem velja notað er svipað burtséð frá því um hvaða verðflokk ræðir. Í lúxusvöru er hlutfallið 26 prósent, 25 prósent með fatnað á milliverði og 22 prósent í ódýrasta flokknum.

Aldamótakynslóðin er móttækilegust fyrir þessari þróun (33%) og því næst „babyboomers“, kynslóðin sem er fædd frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og fram undir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar (331%). X-kynslóðin er þar langt að baki (20%) og Z-kynslóðin, yngsti hópurinn, stendur í 16 prósentum.

Líka á Íslandi

Hér á Íslandi höfum við ekki farið varhluta af þessari þróun. Segja má að endursölumarkaðurinn, sem kalla mætti nýtni-hagkerfið, sé ný stoð í íslensku efnahagslífi og mikið líf hefur hlaupið í markað með endurnýtt föt, húsgögn, heimilismuni og raftæki, svo eitthvað sé nefnt.

Extraloppan í Smáralindinni er afar vel sótt.
fréttablaðið/ernir

Á heimsvísu hefur nýtni-hagkerfið meira en tvöfaldast á síðustu fimm árum og það vex hraðar en flestar aðrar stoðir alþjóðaefnahagslífsins. Þá hafa þau fyrirtæki og félagasamtök, sem stærst eru á þessu sviði í ýmsum löndum, skilað góðum ábata.

Starfshópur á vegum umhverfisráðherra skoðar nú umfang nýtni-hagkerfisins hér á landi með það fyrir augum að greiða fyrir hringrásarhagkerfinu.

Þór Sigfússon, stjórnarformaður Sjávarklasans, hefur mikið kynnt sér þessa nýju stoð efnahagslífsins. Hann segir það einstakt við nýtni-hagkerfið að því hraðar sem það vex því betur fari fyrir bæði náttúrunni og vöruskiptajöfnuðinum.

„Ég tel sterkar vísbendingar um að vöxtur þess hér á landi sé jafnvel töluvert meiri en á heimsvísu. Umfangið skiptir milljörðum króna og líklegt er að nýtni-hagkerfið sé einn mest vaxandi partur íslensks atvinnulífs,“ segir Þór.

Hann segir ástæðu þessa mikla vaxtar vera breytt viðhorf nýrra kynslóða. „Samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum eru viðskiptavinir aðallega fólk á aldrinum 18 til 37 og mesti vöxturinn er þar í Z-kynslóðinni. Aðrar ástæður vaxtar nýtni-hagkerfisins eru tilkoma netverslunar og aukinn áhugi á umhverfismálum. Hér á landi hefur einnig skipt miklu máli sá fjöldi magnaðra frumkvöðla sem hafa rutt brautir í þessum efnum, og einnig krafa neytenda um aukna fjölbreytni í vöruvali. Hér má segja að frumkvöðlar í nýtni-hagkerfinu eigi líka góðar fyrirmyndir í til dæmis sjávarútveginum þar sem frumkvöðlar hafa rutt brautir með nýsköpun í nýtingu hliðarafurða sem hefur leitt til þess að sóunin er minni hér en í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ segir Þór.

Hann segir að nú þurfi að skoða betur hvernig enn megi örva þessa nýju stoð efnahagslífsins. Þar verði meðal annars að sjá hvernig fjárfestar geti komið betur til liðs við fyrirtæki á þessu sviði, hvernig opinberir samkeppnissjóðir geti stutt betur við meðal annars tæknitengda netverslun og önnur þróunarverkefni á þessu sviði og hvort setja megi frekari hvata til endurnýtingar.

Nýtni-hagkerfið þarf að mati Þórs að fá veglegri sess í umræðu um atvinnulíf og efnahagsmál hérlendis. Mikilvægt sé fyrir stjórnvöld og fjárfesta að fylgjast vel með þessari hraðvaxandi atvinnugrein. „Að hlúa frekar að fyrirtækjum og frumkvöðlum á þessu sviði mun efla allt hringrásarhagkerfið,“ segir Þór Sigfússon.

Nýtni-hagkerfið er umhverfisvænt

Umhverfisvernd er orðin ríkjandi stefna og hefur áhrif á afstöðu fólks til þess hvað það setur inn fyrir sínar varir, hvernig það ferðast og líka, núorðið, hvaða fötum það klæðist.

Samkvæmt rannsóknum threadUP kjósa 72 prósent neytenda fremur að eiga viðskipti við þá sem umgangast umhverfið af virðingu. Umhverfisvæn tíska er hins vegar langt frá því að vera ókeypis – handtaska úr endurunnu næloni frá Stellu McCartney kostar til dæmis 590 dali (85 þúsund krónur) í Bandaríkjunum – endursölumarkaðurinn gerir fleirum en áður kleift að verða umhverfisvænir í neysluvenjum sínum.

Séu föt – eða töskur eða skór – notuð og endurnýtt minnkar eftirspurn eftir nýjum vörum. Hráefni fyrir tískuiðnaðinn er frekt á auðlindir og losar mikla mengun – rekja má um það bil 20 prósent af skólpi í heiminum til tískuiðnaðarins.

Búist er við að um 25 prósent af kolefnisspori heimsins um miðja þessa öld muni stafa frá tískuiðnaðinum.