Nýting á þorski hér á landi er um 90 prósent sem er nýting sem sögð er á heimsmælikvarða. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greiningu frá Sjávarklasanum sem birt var í lok október. Í greiningunni segir jafnframt að íslenskur sjávarútvegur hafi um árabil verið í forystu í nýtingu hliðarafurða á hvítfiski í heiminum.

„Verulega hallar á þau lönd sem við berum okkur saman við þegar kemur að nýtingu hliðarafurða. Þó má merkja vaxandi áhuga margra erlendra fyrirtækja á vinnslu hliðarafurða og mörg þeirra sýna áhuga á að læra af Íslendingum í þessum efnum,“ segir í greiningunni.Einnig kemur fram að mikil aukning hafi verið í nýtingu þorsks á undanförnum árum.

„Skýringin á aukningunni er án efa hækkandi verð á mörgum hliðarafurðum og aukinn áhugi fyrir vinnslu hliðarafurða. Þá hefur verið afar þýðingarmikið að stærri fyrirtæki, sem þjónað hafa sjávarútvegi með umsýslu með hliðarafurðir, hafa aukið afkastagetu sína.“

Jafnframt segir að samkvæmt athugun Sjávarklasans haldi Íslendingar forystu í nýtingu en þó séu enn veruleg tækifæri til að vinna meira úr hliðarafurðum og skapa verðmæti og ný störf. Þá hefur nýting hliðarafurða verið lítil í þeim löndum sem við berum okkur saman við, eða aðeins um 45-55 prósent af hvítfiski.

„Þarna er um veruleg verðmæti að ræða sem fara í súginn hjá öðrum þjóðum.“