Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hagnaðist um 30 milljónir króna árið 2020 samanborið við 41 milljón króna árið áður. Á liðinu ári var tekjufærð áður færð varúðarniðurfærsla að fjárhæð 300 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Rekstrargjöld sjóðsins breyttust lítið á milli ára og námu 132 milljónum króna árið 2020 samanborið við 129 milljónir króna árið 2019.

Sjóðurinn fjárfesti í fyrra í tveimur nýjum félögum, Pay Analytics og Tyme Wear og seldi að fullu hluti sína í fyrirtækjunum Sólfar og Atmo Select. Þá hélt Nýsköpunarsjóður áfram að styðja við félög í núverandi eignasafni.

Á í 22 fyrirtækjum og þremur vísisjóðum

Í lok árs 2020 voru hlutir í 22 fyrirtækjum í eignasafni sjóðsins auk þess sem sjóðurinn á eignahluti í þremur öðrum sjóðum.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sagði í ávarpi sínu á ársfundi sjóðsins að hann hefði mikilvægu hlutverki að gegna. Sjóðurinn væri sá eini sem sé sígrænn og leiti því alltaf fjárfestingarkosta. Sjóðurinn hafi þannig stutt við nýsköpunarsprota sem margir hafi orðið að myndarlegum fyrirtækjum, með fjölda starfsmanna og útflutningstekjur.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins

Umsjón með Stuðnings-Kríu var umsvifamikið verkefni hjá Nýsköpunarsjóði á árinu, en í kjölfar COVID-19 faraldursins var gerður samningur á milli sjóðsins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um mótframlagslán. Tilgangur mótframlagslána var að styðja við lífvænleg sprota- og nýsköpunarfyrirtæki vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem Covid-19 faraldurinn hefur ollið.

Á ársfundi Nýsköpunarsjóðsins vék Kristján Þórður Snæbjarnarson úr stjórn en í hans stað kemur Róbert Eric Farestveit. Aðrir í stjórn eru Arnbjörg Sveinsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Sigurður Hannesson.