„Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, sem kynnti í dag nýja Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.

Stefnunni er ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum, segir í tilkynningu.

Við mótun stefnunnar tóku þátt fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, fulltrúar atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Vinnu stýrihóps leiddi Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant.

Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant.

Samkvæmt tilkynningunni er nýsköpunarlandið Ísland samfélag þar sem hugarfar, fjármagn, markaðsaðgengi, umgjörð og mannauður styðja við nýsköpun sem grundvöll menningarlegra og efnahagslegra lífsgæða.

Standa vörð um EES-samninginn

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að íslensk stjórnvöld muni standa áfram vörð um markaðsaðgang í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þá er nefnt að íslensk fyrirtæki eigi kost á því að ráða til sín starfsfólk með þá sérþekkingu sem nauðsynleg er í rekstri þeirra, og að umsóknir um atvinnuleyfi á þeim grunni séu einfaldaðar og ferlinu hraðað.

Eins að auðvelt og skattalega hagkvæmt verði að veita starfsfólki í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum hlutabréf og kauprétti sem hluta af starfskjörum.

Sýn til ársins 2030

Nýsköpunarstefna fyrir Ísland markar sýn til ársins 2030. Í henni er sett fram það markmið að árið 2030 sé Ísland fjölbreytt samfélag velferðar, öryggis og jafnra tækifæra. Ísland verði í fremstu röð þegar borin eru saman lífsgæði og hamingja í löndum heims. Samfélag þar sem nýsköpun er inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og er fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun, segir í tilkynningunni.

„[H]ún verður undirliggjandi hugmyndafræði þeirra aðgerða sem munu fylgja í kjölfarið.“

„Það skiptir máli að hafa teiknað upp þá grunnsýn til næstu ára sem er lögð fram í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, því að hún verður undirliggjandi hugmyndafræði þeirra aðgerða sem munu fylgja í kjölfarið. Við höfum alla burði til að vera virkir og fullgildir þátttakendur í hröðum og síbreytilegum heimi nýsköpunar og tæknibreytinga. Það er áskorun sem við þurfum að takast á við til að tryggja framúrskarandi lífskjör og velsæld á Íslandi á komandi áratugum. Sú stefna sem hér er lögð fram gerir okkur að mínu mati betur í stakk búin til þess en nokkru sinni fyrr,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra.

Ríkið fjárfesti í sjóðum en ekki eintaka fyrirtækjum

Fram kemur í skýrslunni að ríkið stýri þátttöku sinni í nýsköpunarfjárfestingum með þátttöku í sjóðum þar sem markaðsbrestir eru til staðar, en fjárfesti að jafnaði ekki beint í fyrirtækjum. Sjóðir sem tengjast nýsköpun verði samþættir og sameinaðir til þess að einfalda umsýslu og auka skilvirkni. Innleiddur verði hugbúnaður sem heldur utan um allt styrkjakerfi hins opinbera og gagnagrunnar um rekstur hins opinbera verði bættir.

Enn fremur segir að aðgengi að gögnum í eigu hins opinbera verði opið og hver sem er geti nýtt sér það að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða.

„Við mótun regluverks sem snertir íslenskt atvinnulíf þarf að gæta þess að ekki séu lagðar óhóflegar kröfur á fyrirtæki og að eftirlit sé hraðvirkt, skilvirkt og feli í sér skilning á þörfum og aðstæðum atvinnulífsins,“ segir í skýrslunni.

Auk þess segir að einstaklingar og fyrirtæki þurfi að geta sent vörur og fengið sendar vörur í gegnum póstþjónustu. „Umsýslutími og kostnaður við slíka þjónustu verði samkeppnishæfur við önnur svæði.“