Nýsköpunarfyrirtækið Stubbur er miðasöluvettvangur (e. platform) fyrir minni viðburði. Hlutverk fyrirtækisins er meðal annars að selja miða á smærri viðburði, þá aðallega íþróttaviðburði, og gefa út árskort, skírteini og fjölmiðlapassa. Hjá fyrirtækinu starfa fjórir og það hefur farið ört stækkandi á síðustu misserum.

Jónas Óli Jónasson, stofnandi Stubbs, segir í samtali við Markaðinn að hugmyndin að fyrirtækinu hafi kviknað þegar hann var við nám í Svíþjóð.

„Ég gerði smáforrit fyrir KR (Knattspyrnufélag Reykjavíkur) á sínum tíma sem var hugsað sem vettvangur upplýsinga um félagið fyrir stuðningsmenn. Síðan var ég í námi í Svíþjóð í alþjóðlegri markaðssetningu og vörumerkjaþróun og þá sá ég að allir lestarmiðarnir voru virkjaðir í síma og hugsaði að þetta yrði flott virkni í appinu. Þá tengdi maður saman tvo og tvo og úr varð Stubbur,“ segi Jónas og bætir við að fyrirtækið hafi snemma innleitt þá stefnu að einblína á íþróttaviðburði.

„Það sem við viljum gera er að búa til betri tengingu milli viðburðarhaldara og áhorfanda, þar sem stuðningsmenn mæta oft á sömu viðburði hjá tilteknu félagi. Við einblínum á íþróttaviðburði þar sem miðarnir mega ekki vera of flóknir og aðstoðum félög við að senda út áminningar um viðburði í gegnum tilkynningar (e. notifications) til áhorfanda.“

Jónas segir jafnframt að einnig hafi sú ákvörðun verið tekin snemma að fara ekki í beina samkeppni við aðrar lausnir heldur einbeita sér að smærri viðburðum þar sem gat hafi verið til staðar á markaðnum þegar kemur að þeim.

„Við erum á þessari stundu bara á okkar hillu og viljum einbeita okkur að því sem við erum að gera, frekar heldur en að fara í samkeppni við stærri aðila á öðrum viðburðum. Samkeppni er að sjálfsögðu af því góða en hún getur verið mjög hörð.“

Jónas bætir við að fyrirtækið stefni þó á að fara í útrás erlendis og segist vera viss um að tækifærin liggi þar.

„Stubbur er í þeim undirbúningsfasa að fara í útrás erlendis. Við einbeitum okkur að því að landa viðburðum erlendis inn í Stubbs-kerfið. Við fengum styrk frá Tækniþróunarsjóði í fyrra og það hefur hjálpað okkur mikið við að þróa vöruna áfram. Ég er virkilega þakklátur fyrir að fá þann styrk. Stefnan er sett á að sækja okkur meira fjármagn á næstu misserum,“ segir Jónas og nefnir að fram að styrknum hafi fyrirtækið fjármagnað sig með góðum samningum við sérsamböndin og eigin fjármagni.