Rannís telur að endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja muni aukast úr 5,2 milljörðum króna fyrir árið 2019 í um tíu milljarða fyrir árið 2020. Rauntölur munu líklega ekki liggja fyrir fyrr en seinna á árinu þegar öll fyrirtæki hafa skilað inn skattskýrslu og álagning vegna liðins árs liggur fyrir.

Endurgreiðslan jókst um 46 prósent á milli áranna 2018 og 2019, samkvæmt gögnum sem Rannís tók saman fyrir Markaðinn.

„Á einu til tveimur árum hefur staðan gjörbreyst,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

„Þessar tölur sýna svart á hvítu að nýsköpun á Íslandi hefur stóraukist og hefur hún aldrei verið meiri en nú,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. „Á einu til tveimur árum hefur staðan gjörbreyst með ötulu starfi frumkvöðla og vel heppnuðum aðgerðum stjórnvalda um aukna hvata.“

Alþingi hækkaði í fyrra endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar úr 20 prósentum í 35 prósent í tengslum við aðgerðir til að bregðast við efnahagssamdrætti sem rekja má til Covid-19 heimsfaraldursins. Þak á endurgreiðslum hækkaði úr 600 milljónum króna í 1.100 milljónir króna.

Heimild: Rannís

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands, segir að skattaendurgreiðslurnar séu ein stærsta einstaka stuðningsaðgerð við nýsköpunarstarf fyrirtækja hér á landi. „Ísland er nú meðal fremstu röð ríkja OECD varðandi skattalega hvata til nýsköpunar í atvinnulífinu,“ segir hún.

„Ísland er nú meðal fremstu röð ríkja OECD varðandi skattalega hvata til nýsköpunar í atvinnulífinu,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Íslands.

Sigurður segir að tölur Rannís séu enn önnur staðfesting þess að hugverkaiðnaður, fjórða stoðin í útflutningstekjum þjóðarbúsins, hafi fest sig í sessi. „Við sjáum það meðal annars á auknum fjölda fyrirtækja sem sækja um staðfestingu til Rannís á rannsókna- og þróunarverkefnum, en sá fjöldi hefur tvöfaldast á síðustu tveimur árum og er nú ríflega 300. Jafnframt sýnir þetta að hvatar vegna rannsókna- og þróunar virka vel og hratt og hvetja til aukinnar fjárfestingar í nýsköpun. Slíkir hvatar voru fyrst innleiddir fyrir rúmum áratug síðan. Þeir voru stórauknir í fyrra og hafa þeir þegar sannað gildi sitt. Segja má að þetta hafi verið mikilvægasta aðgerð stjórnvalda í tengslum við efnahagsleg viðbrögð við heimsfaraldri kórónuveiru enda blésu fyrirtæki í hugverkaiðnaði til sóknar, réðu fleiri starfsmenn og fjárfestu enn meira í nýsköpun,“ segir hann.

Þórdís Kolbrún bendir á að útflutningstekjur af hugverkaiðnaði á Íslandi á síðastliðnum átta árum hafi tvöfaldast. „Við erum rétt að byrja og erum komin með nýja stoð í hagkerfið. Hún verður til í samfélagi þar sem öflugir einstaklingar með þekkingu og þrautseigju hafa færi á að hugsa stórt og nýta sér stuðning umhverfisins hér á landi.“

Sigurður segir að hugverkaiðnaður hafi skapað 16 prósent af gjaldeyristekjum árið 2020 og hafi alla burði til að verða stærsta útflutningsstoðin okkar til framtíðar ef rétt sé haldið á málum. „Til þess að það verði skiptir öllu að núverandi umgjörð verði varanleg þannig að fyrirtæki sjái sér áfram hag í því að stunda nýsköpun hér landi og geti gert langtímaáætlanir um þróunarverkefni. Áframhaldandi fjárfesting í nýsköpun og vöxtur hugverkaiðnaðar er stærsta efnahagsmálið enda munu lífskjör okkar til framtíðar ráðast af auknum útflutningstekjum,“ segir hann.

Sprotar taka verulega vaxtarkippi

Sigurður segir að tölur Rannís um endurgreiðslur á þróunar- og rannsóknarkostnaði minni á að nokkur sprotafyrirtæki eru um þessar mundir að taka verulega vaxtarkippi eftir öflugt þróunarstarf undanfarinna ára og fleiri fyrirtæki hafi alla burði til þess að vaxa verulega á næstu árum. Þá verði fimm vísisjóðir stofnaðir á þessu ári með um 40 milljarða fjárfestingagetu og séu lífeyrissjóðir landsins þar öflugir bakhjarlar. Með tilkomu sjóðasjóðsins Kríu á vegum ríkisins megi búast við stofnun enn fleiri vísisjóða á næstu árum sem styðja munu við nýsköpun á Íslandi. „Þegar litið er til alls þessa þá höfum við sagt að þriðji áratugur þessarar aldar verði áratugur nýsköpunar og hugverkaiðnaðar á Íslandi,“ segir hann.