Sigtún Þróunarfélag, sem byggt hefur upp nýja miðbæinn á Selfossi, stendur á bak við Bankann Vinnustofu. „Markmiðið er að þessi vinnustaður opni einstaklingum og fyrirtækjum ný tækifæri og er hluti af þeirri vegferð okkar að byggja Selfoss upp sem búsetukost og sem miðstöð ferðaþjónustu á Suðurlandi“, segir Leó Árnason, stjórnarformaður Sigtúns Þróunarfélags. „Hér er farin ný leið í samstarfi einkaaðila og hins opinbera til uppbyggingar á landsbyggðinni, leið sem byggir á nýjum viðhorfum og samfélagsþróun,“ segir Leó.

„Fólk með góða menntun og mörg atvinnutækifæri sækist eftir fallegu og nútímalegu vinnuumhverfi; góðu aðgengi að nýrri tækni og áhugaverðum félagsskap – og skiptir þá engu máli hvar á landinu fólk býr,“ segir Leó. „Tæknilega getur fólk unnið mörg störf á heimili sínu með fjarbúnaði, en fyrir flesta er gríðarlega mikilvægt að vera innan um aðra, að vera hluti af daglegu vinnusamfélagi sem á landsbyggðinni fæst einmitt með því að leiða fólk úr ólíkum greinum saman á fallegum stærri vinnustað.“

Störf óháð staðsetningu

Fölmargir Selfyssingar og Sunnlendingar sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið daglega. Bankinn Vinnustofa varð til í samstarfi Sigtúns Þróunarfélags, stjórnvalda, sveitarfélagsins Árborgar og Samtaka atvinnulífsins samkvæmt samningi sem undirritaður var sl. sumar. Tilgangur samstarfsins er að auka atvinnutækifæri og nýsköpun á svæðinu, byggja upp þekkingarklasa og draga úr umferð og mengun. Vinnustofan er þannig hluti af átaksverkefni stjórnvalda sem miðar að því að fólk búsett á landsbyggðinni hafi fullan aðgang að eftirsóttum störfum, til jafns við þá sem búa á Höfuðborgarsvæðinu.

Vinnustofan

Bankinn Vinnustofa er á tveimur efri hæðum Landsbankahússins við Austurveg á Selfossi, á samtals um 500 fermetrum. Húsnæðið hefur algjörlega verið tekið í gegn til þess að skapa frábæra vinnuaðstöðu, góða hljóðvist og birtu, fjölbreytt aðlaðandi rými og fyrsta flokks tæknibúnað. Þar eru opin skrifstofurými og smærri skrifstofur, tveggja til tólf manna fullbúin fundarherbergi, fjarfundaklefar, setustofur, bar og fleira.

Allir eru velkomnir til þátttöku í Bankanum Vinnustofu og allir leigjendur hafa jafnan aðgang að allri aðstöðunni. Hún hentar mjög vel fyrir þá Sunnlendinga sem vinna á höfuðborgarsvæðinu, hjá opinberum aðilum jafnt sem einkafyrirtækjum, og gætu hugsað sér að stunda hluta vinnu sinnar á Selfossi. En Bankinn er einnig frábær lausn fyrir þá sem vinna sjálfstætt eða hjá litlum fyrirtækjum og hafa hag af því að deila skrifstofurými með öðrum.