Overtune er nýtt smáforrit þar sem notendum er gert kleift að búa til tónlist og deila afurðinni á samfélagsmiðla.

Nick Gatfield, fjárfestir og fyrrum framkvæmdastjóri hjá Sony Music, segir að þrátt fyrir að hafa fjárfest í fjölmörgum tónlistartengdum verkefnum hafi hann sjaldan séð jafn mikla vaxtarmöguleika og hjá Overtune.„Þetta er fyrsta smáforritið sem talar til kynslóðarinnar þar sem sífellt fleiri efnishöfundar (e. content creator) eru að spretta upp,“ segir Nick og bætir við að möguleikarnir séu í raun endalausir.

Nick Gatfield, fjárfestir og fyrrum framkvæmdastjóri hjá Sony Music.
Aðsend mynd.

„Þú getur búið til lag eða tekið upp raddprufu og síðan deilt því, ekki aðeins á samfélagsmiðla heldur líka inni í smáforritinu.“

Nick segir að að því leytinu til muni Overtune líklega þróast út í að verða eins konar samfélagsmiðill. Til að byrja með getur fólk nálgast Overtune sér að kostnaðarlausu en listamenn geta þó keypt ýmsar vörur sem appið býður upp á.

Með tíð og tíma er til skoðunar að fólk geti keypt áskriftir af ákveðnu efni en frumhugmyndin verður ávallt notandanum að kostnaðarlausu.Nick bætir við að þótt fyrirtækið hafi aðeins starfað í rétt rúm tvö ár hafi þeir fengið gífurlega góðar viðtökur.

„Við höfum fengið viðbrögð víða og meira að segja Apple hefur lýst yfir áhuga á samstarfi.“