Þorsteinn Friðrik Halldórsson
tfh@frettabladid.is
Miðvikudagur 4. nóvember 2020
06.00 GMT

Undir stjórn Birnu Einarsdóttur hefur Íslandsbanki sett háleitt markmið um að vera hreyfiafl til góðra verka. Með nýja innkaupastefnu, sem gerir kröfur til birgja bankans, og ramma utan um sjálfbær lán í eignasafninu, er bankinn kominn með þau tól sem hann þarf til þess að ná þessu markmiði til lengri tíma litið. Birna segist sannfærð um að samfélagsleg markmið geti haldist í hendur við hámörkun arðsemi.

„Eitt stærsta verkefnið fram undan er að auka vægi nýrra, umhverfisvænna og félagslegra lána í lánasafni bankans. Slíkt mun skapa tækifæri á fjármögnunarhliðinni sem skilar sér á endanum til viðskiptavina,“ segir Birna í samtali við Markaðinn.

Íslandsbanki varð á dögunum fyrstur íslenskra banka til þess að skilgreina og birta sérstakan ramma utan um sjálfbær lán í eignasafni sínu. Sjálfbær fjármálarammi Íslandsbanka samanstendur af grænum flokki fyrir umhverfismál, bláum flokki fyrir sjálfbær verkefni í sjávartengdum atvinnugreinum og sérstökum flokki fyrir verkefni sem styðja við félagslega uppbyggingu.

„Við erum mjög opin fyrir verkefnum sem smellpassa inn í þennan ramma hvort sem það fellur undir núverandi lánasafn eða ný verkefni,“ segir Birna.

Telurðu sem sagt að markmið bankans, það er hámörkun arðsemi annars vegar og uppbygging á sjálfbæru lánasafni hins vegar, flækist ekki hvort fyrir öðru?

„Ég er alveg sannfærð um að þessi markmið fari saman og að aukið vægi sjálfbærra verkefna í lánasafninu leiði til hagkvæmari fjármögnunar. Ein helsta ástæðan er sú að það hefur orðið sprenging í áhuga á þessum málum, bæði hjá einkafjárfestum og stofnanafjárfestum,“ segir Birna og nefnir sem dæmi að á síðustu þremur mánuðum hafi sjóðfélögum Græna sjóðsins hjá Íslandssjóðum fjölgað um 10 prósent, en sjóðurinn fjárfestir fyrst og fremst í skuldabréfum sem gefin eru út til að fjármagna verkefni sem stuðla að sjálfbærni.


„Þetta er líka eitthvað sem fjárfestar leggja áherslu á, það er að segja að við séum ekki bara að fjármagna eldri verkefni í lánasafninu.“


„Einnig eru vísbendingar á alþjóðlegum mörkuðum um að útgefendur grænna og sjálfbærra skuldabréfa séu að fá ívið lægri kjör en við hefðbundnar útgáfur og við viljum að sjálfsögðu leyfa okkar viðskiptavinum að njóta ábatans ef til kemur,“ segir Birna.

Spurð hvort ramminn sé í samræmi við alþjóðleg viðmið nefnir Birna að við setningu hans hafi verið stuðst við græn, félagsleg og sjálfbær viðmið frá ICMA, sem eru alþjóðasamtök aðila á verðbréfamarkaði, auk þess sem horft hafi verið til væntanlegs flokkunarkerfis frá ESB. Sustainalytics, sem er leiðandi alþjóðlegt fyrirtæki á sviði sjálfbærni, hafi gefið jákvætt ytra álit á rammanum og sjálfbærniráðgjafarfyrirtækið CIRCULAR Solutions veitt bankanum ráðgjöf við þróun hans.

Birna segir að bankinn sé auk þess að koma á fót sérstöku fagráði sem mun leggja mat á lán og hvort þau falli undir rammann, en slíkt, ásamt reglulegri skýrslugjöf og áliti ytri aðila á skýrslunni, sé afar mikilvægt til að koma í veg fyrir svokallaðan grænþvott.

„Við erum að reyna að vera mjög ströng á því hvaða lán muni eiga erindi inn í þennan ramma. Það verður haldið vel utan um þetta.“

Ekki bara endurfjármögnun

Fyrstu greiningar benda til þess að allt að 30 prósent af núverandi lánasafni bankans geti fallið undir sjálfbærnirammann.

„Lánasafnið okkar nemur samtals 970 milljörðum króna og fyrstu greiningar gefa í skyn að 100 milljarðar ættu að mestu leyti að geta fallið undir rammann. Þetta eru til dæmis lán til kaupa á rafbílum, smáar virkjanir, vörur og þjónusta með umhverfisvottun og svo auðvitað tengt sjávarútveginum, sem hefur tekið mjög jákvæð sjálfbærni­skref að undanförnu með sparneytnari skipaflota og umhverfisvænni starfsemi.

Auk þess gætu verið lán upp á hátt í 200 milljarða króna til viðbótar sem hugsanlega falli undir rammann, en til þess þyrfti að ráðast í einhverjar breytingar á lánasamningum og fá ítarlegri upplýsingar. En það er mikilvægt að nefna að við erum alls ekki bara að horfa til núverandi lánasafns fyrir rammann, heldur viljum við ná til nýrra verkefna og hjálpa þannig í baráttunni við loftslagsbreytingar og aukinn jöfnuð í samfélaginu. Þetta er líka eitthvað sem fjárfestar leggja áherslu á, það er að segja að við séum ekki bara að fjármagna eldri verkefni í lánasafninu. “

Innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur verið rætt um að slaka á eiginfjárkröfum sem eru gerðar til banka í því skyni að hvetja til grænna fjárfestinga í Evrópu. Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, kom inn á þessi áform í viðtali við Markaðinn fyrr á þessu ári, þar sem hún sagði að í framtíðinni væri áætlað að umhverfis- og samfélagsþættir yrðu hafðir til hliðsjónar í árlegu innra mati á eiginfjárþörf fjármálafyrirtækja. Þessar hugmyndir eru þó langt frá því að raungerast.

Komið inn í erfðamengið

Sjálfbæri fjármálaramminn er hluti af stefnu Íslandsbanka í sjálfbærni, sem miðar að því að bankinn verði hreyfiafl til góðra verka. Þegar markið er sett hátt er mikilvægt að fá allt starfsfólk í lið með sér, að sögn Birnu.

„Ég þoli ekki stefnu sem er einungis á blaði. Ef við setjum svona stefnu þá gerum við það almennilega, fáum starfsfólk í lið með okkur og tökum þetta alla leið af eldmóði og krafti. Það tekur tíma að knýja fram kúltúrbreytingu og hún þarf að ná frá stjórn og niður á gólf. Annars næst ekki þessi árangur. En þegar þetta er komið inn í erfðamengið á 750 manna vinnustað, þá gerast kraftaverk.

Við höfum til dæmis sett okkur sjö sjálfbærnimarkmið sem horfa til umhverfisins, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS viðmið), auk þess sem við styðjum við fjögur af heimsmarkmiðunum um menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, nýsköpun og aðgerðir í loftslagsmálum. Við kynntum þetta innanhúss í haust og ég er að hitta allar deildir bankans og fara yfir þetta með starfsfólki. Allir framkvæmdastjórar bankans hafa nefnilega skyldum að gegna á þessu sviði og verða að setja markmið og aðgerðaráætlun fyrir sín svið.“

Fréttablaðið/Stefán

Stór hluti af sjálfbærnistefnu bankans felst í innkaupastefnunni, þar sem meðal annars er horft til þessara UFS þátta sem fela í sér að tekið sé tillit til umhverfis- og samfélagsþátta, auk góðra stjórnarhátta.

„Ég hef sjálf hitt stærstu birgja bankans til þess að ræða þær kröfur sem við gerum og viðbrögðin hafa verið mjög góð. Auðvitað eru fyrirtæki komin mislangt á veg og við gætum þess að fara ekki fram með neinu offorsi. Við tökum einfaldlega fram að þetta séu áherslurnar og að á næstu misserum verði þær mikilvægur mælikvarði í vali okkar á birgjum.“

Er nálgun bankans sem sagt sú að eiga samtal við birgja fremur en að neita að eiga í viðskiptum við þá?

„Já, þannig næst alltaf bestur árangur. Þessi samtöl hafa öll gengið vel, enda flestir á svipaðri, eða að hefja svipaða, vegferð. Innkaup fyrirtækja eru mjög árangursrík leið til að hafa góð áhrif og horfa þá ekki aðeins á lægsta verðið. Það er mikilvægt að nefna að við erum ekki að fara fram á neitt sem við erum ekki að gera sjálf. Til dæmis varðandi kolefnislosun, þá viljum við að stærri birgjar séu að mæla hana, setja fram aðgerðir til að minnka og tilgreina hvernig/hvort þeir séu að jafna losunina.

„Það tekur tíma að knýja fram kúltúrbreytingu og hún þarf að ná frá stjórn og niður á gólf. Annars næst ekki þessi árangur.“

Við förum fram á að birgjar okkar virði lög og reglur um jafnréttismál og hvetjum þá til að standa sig vel í stjórnendahlutföllum kynja. Og fyrir stjórnarhættina, þá viljum við sjá birgjana okkar setja sér sínar eigin siðareglur og sjálfbærnistefnu og greina frá sjálfbærnistarfsemi sinni í árlegri skýrslugjöf. Meira er það nú ekki, að minnsta kosti fyrst um sinn á meðan við erum að koma okkur betur inn í þennan nýja heim.“

Íslandsbanki, ásamt Landsbankanum, hafði umsjón með og sölutryggði hlutafjárútboð Icelandair. Setti bankinn skilyrði um umhverfisþætti fyrir aðkomu að útboðinu?

„Við vitum að nýjar fjárfestingar Icelandair, eins og gildir um önnur fyrirtæki, verða til þess að bæta umhverfið og við höfum fylgst með þeirri góðu þróun. Félagið hefur, líkt og önnur, verið að taka skref í sjálfbærnimálum sem eru mikilvæg. Við reynum að hafa þessa þætti í huga í þeim verkefnum sem við komum að svo að hvert tækifæri sé nýtt.“

Sér ýmsa varnarsigra

Íslandsbanki hagnaðist um 3,4 milljarða króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 2,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eiginfjár hækkaði töluvert en hún var 7,4 prósent samanborið við 4,7 prósent í fyrra.

„Við vorum mjög ánægð með uppgjörið þrátt fyrir að virðisrýrnun vegna kórónukreppunnar liti árið í heild sinni. Við sjáum ýmsa varnarsigra, dæmis í vaxtatekjum og þóknanatekjum, og launakostnaður á fjórðungnum lækkar um 12 prósent á milli ára. Þannig að við erum að ná verulegum árangri á kostnaðarhliðinni,“ segir Birna.

Hreinar vaxtatekjur jukust um 1,4 prósent á milli ára og hreinar þóknanatekjur jukust um 12,3 prósent á milli ára, sem skýrðist meðal annars af hærri tekjum frá eignastýringu, fjárfestingabankastarfsemi og verðbréfamiðlun.

Fréttablaðið/Eyþór

Þá lækkaði stjórnunarkostnaður um 8,9 prósent sem skýrðist af áframhaldandi kostnaðarhagræðingu og aðgerðum fyrri tímabila. Kostnaðarhlutfall bankans var 46,7 prósent, samanborið við 56,3 prósent á sama fjórðungi í fyrra. Er því markmið bankans, um að kostnaðarhlutfall skuli vera lægra en 55 prósent, uppfyllt.

„Við fækkuðum starfsfólki í fyrra sem er erfiðasta aðgerð sem stjórnendur þurfa að grípa til, en þessar sársaukafullu aðgerðir eru að skila sér í lægri kostnaði. Og COVID hefur haft einhver áhrif að því leyti að það er minna um ferðalög og skrifstofukostnað sem annars hefði fallið til.“

Auk þess var sterkur útlánavöxtur. Húsnæðislán hafa vaxið verulega og einnig lán til fyrirtækja. Þrátt fyrir COVID og vanda ferðaþjónustunnar er víða kraftur í efnahagslífinu og það er ánægjulegt að geta tekið þátt í þeim verkefnum.“

Áskoranir í lágvaxtaumhverfi

Í fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fimm ára er fallið frá kröfum um arðgreiðslur frá Íslandsbanka og Landsbanka á tveggja ára tímabilinu 2020–2021. Getur Íslandsbanki greitt út arð á næsta ári?

„Það er algjörlega eigandans að ákveða. Út frá lausafjárhlutföllum og eiginfjárhlutföllum þá getum við greitt út arð, en það er líka mikilvægt að bankinn geti tekist á við þann efnahagsvanda sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Við gerum það með því að viðhalda sterkri lausafjár- og eiginfjárstöðu.“

Áformum um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hafði verið slegið á frest, en í fjármálaáætlun kemur fram að sala á Íslandsbanka geti verið vænlegur kostur á síðari hluta tímabilsins. Er Íslandsbanki söluvænn eins og staðan er í dag?

„Það er margt í uppgjörinu sem bendir til þess. Við höfum náð töluverðu kostnaðarhagræði, þetta er stærsta árið í fyrirtækjaráðgjöf sem við höfum átt og við erum með mestu samanlögðu markaðshlutdeildina í miðlun hlutabréfa og skuldabréfa. En lágvaxtaumverfið er nýr veruleiki og rífur í afkomu bankans, sem gerir það aftur að verkum að við þurfum að einfalda reksturinn eins mikið og hægt er til að ná hagræðingu.

„Þegar arðsemi bankans verður komin á réttan kjöl eftir COVID-19 og að söluumræðu kemur, þá er ljóst að bankinn verður mjög álitlegur fjárfestingarkostur.“

Bankar um allan heim eru að glíma við minnkandi arðsemi, sem helgast af lækkandi vaxtastigi og auknum kröfum eftirlitsstofnana. Þetta þarf að taka inn í myndina þegar bankinn er metinn sem fjárfestingakostur. Þegar arðsemi bankans verður komin á réttan kjöl eftir COVID-19 og að söluumræðu kemur, þá er ljóst að bankinn verður mjög álitlegur fjárfestingarkostur.“

Íslandsbanki þurfti að hækka vexti á húsnæðislánum í síðustu viku en hækkunin var rökstudd með vísan til hækkandi ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði. Hefurðu áhyggjur af því hvernig ávöxtunarkrafan á markaði hefur þróast?

„Við hækkuðum vextina á nýjum húsnæðislánum lítillega og vorum þannig að bregðast við hækkunum á skuldabréfamörkuðum. Vaxtahækkunin nær hins vegar aðeins yfir ný útlán og hefur ekki áhrif á núverandi viðskiptavini. Við erum enn mjög samkeppnishæf með bestu vextina í sumum flokkum. En það er vissulega áhyggjuefni ef lækkun stýrivaxta er ekki að skila sér nægilega vel í skuldabréfamarkaði sem myndar grunn að verðlagningu húsnæðislána. Þetta verður að fylgjast að.“

Hætta á að greiðsluvandi geti þróast yfir í skuldavanda

Fjármálastofnanir gerðu í vor með sér samkomulag um tímabundinn greiðslufrest á lánum til fyrirtækja. Fyrirtæki gátu þá sótt um að fresta greiðslum í allt að sex mánuði, en þó ekki lengur en út árið 2020. Tuttugu prósent af lánasafni Íslandsbanka var sett í frystingu, en nú þegar flestir greiðslufrestir hafa runnið út er hvert tilfelli metið fyrir sig.

„Mín skoðun er sú að bankarnir og stjórnvöld náðu miklum árangri með frystingu afborgana og hlutabótaleiðinni. Þetta hafa verið skilvirkustu aðgerðirnar. Frystingunni var komið á með mjög skömmum fyrirvara enda var enginn tími til þess að ráðast í viðamikið mat á aðstæðum. Við þurftum að bregðast hratt við greiðsluvanda fyrirtækja,“ segir Birna.

„Það er okkar að mat að á fyrirtækjahliðinni geti helmingur fyrirtækja hafið greiðsluferli á ný en við skoðum hvert tilfelli fyrir sig. Hinn helmingurinn er að uppistöðu ferðaþjónustufyrirtæki. Hvað þau varðar erum við að frysta afborganir fram á næsta sumar,“ bætir hún við. Bankinn gerir því ráð fyrir að minnst 10 prósent af lánasafninu verði í frystingu fram á næsta sumar.


„Það kann síðan að vera að greiðsluvandinn þróist yfir í skuldavanda eftir því sem afborgunum er velt fram í tímann og fyrirtæki taka á sig meiri skuldir.“


Stuðningslán voru ein af aðgerðum stjórnvalda til að sporna við kórónukreppunni. Stuðningslán með 100 prósenta ríkisábyrgð getur að hámarki orðið 10 milljónir og ber sömu vexti og vextir af sjö daga bundnum innlánum lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands. Viðbótarstuðningslán með 85 prósenta ríkisábyrgð getur bæst við stuðningslán og getur að hámarki orðið 30 milljónir.

„Við höfum veitt 300 lán hingað til en við sjáum töluverða aukningu í umsóknum. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki biðu með að skuldsetja sig í sumar þegar tekjur voru að koma inn, en nú verður ekki hjá því komist,“ segir Birna.

„Ólíkt síðustu kreppu, þegar skuldabyrði fyrirtækja var stærsta viðfangsefnið, er greiðslugeta fyrirtækja það sem við erum helst að glíma við. Það kann síðan að vera að greiðsluvandinn þróist yfir í skuldavanda eftir því sem afborgunum er velt fram í tímann og fyrirtæki taka á sig meiri skuldir.“

Svo virðist sem veiting brúarlána, sem eru með allt að 70 prósenta ríkisábyrgð og geta numið að hámarki 1,2 milljörðum króna, sé lítil sem engin. Voru brúarlánin misheppnuð aðgerð?

„Brúarlánin voru tilkynnt skömmu eftir að kórónuveiran kom til landsins en þá var algjör óvissa um hvernig það myndi spil­ast úr þessu og hvaða lausnir væru við hæfi. Þessi lán eru með 70 prósenta ríkisábyrgð og þar af leiðandi fylgja þeim stíf skilyrði og þau eru flókin í vinnslu. En það hefur ekki staðið á bankanum að veita þessi lán. Við erum með örfá slík lán í pípunum.“

Gjörbreytt bankaþjónusta

Heimsfaraldurinn hefur gjörbreytt bankaþjónustu að því leyti að notkun á stafrænum lausnum hefur aukist stórlega. Virkir notendur Íslandsbankaappsins voru 450 prósentum fleiri síðustu mánaðamót heldur en síðustu áramót.

„Við höfðum teiknað upp langtímaáætlanir um breytingar, sem ætlað var að stuðla að aukinni notkun á stafrænni þjónustu og þannig að fækkun útibúa, en COVID hefur krafist þess að við flýttum þessari þróun. Það sem við reiknuðum með að gerðist á nokkrum árum er að gerast á nokkrum mánuðum.“

Fréttablaðið/Ernir

Stóraukin notkun á stafrænum lausnum gerði Íslandsbanka kleift að fækka útibúum um tvö í vor, þegar útibúin á Höfða og Granda sameinuðust útibúinu á Suðurlandsbraut.

„Þegar bankinn var lokaður leysti fólk sín mál meira og minna í gegnum síma eða netspjall. Um 80 prósent af samtölum í netspjalli hjá okkur eru afgreidd af vélmenni og við sjáum að gríðarlega stór hluti vill þjónustu á kvöldin. En við fundum líka að þegar bankinn opnaði aftur þótti hluta af viðskiptavinum ósköp gott að koma aftur í útibúið. Framtíð bankastarfsemi felur í sér blöndu af hvoru tveggja, einföld stafræn þjónusta ásamt persónulegri þjónustu.“

Þá var þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, sem áður var dreifð á nokkur útibú, sameinuð í eina fyrirtækjamiðstöð í höfuðstöðvunum í Norðurturni.

„Þetta er að skila sér í hagræðingu en frekari lokanir eru ekki í pípunum. Núna viljum við tryggja góða þjónustu við viðskiptavini og það er mikilvægt að allar breytingar á útibúaneti séu í takt við þróun stafrænnar þjónustu. Í þessum efnum þarf að gæta að því að fara ekki fram úr sér.“

Mesta starfsánægjan frá því fyrir hrun

Áður en kórónaveiran skall á hagkerfið hafði Íslandsbanki sett sér það markmið að starfsmenn myndu vinna að heiman einn dag í viku til þess að minnka kolefnisspor starfseminnar.

„Fyrsta bylgja kórónuveirunnar var í raun snemmbúin prófraun á þetta verkefni sem við vorum með í bígerð. Það sem við gerðum í kjölfarið var að ráðast í tilraunaverkefni með nokkrum deildum, sem fól í sér að vinna einn vinnudag heima fyrir í hverri viku þó svo að það þyrfti ekki samkvæmt sóttvarnareglum. Niðurstaðan var mjög góð og starfsfólk sagði að afköstin væru þau sömu eða jafnvel meiri þegar það ynni heima. Við sjáum það líka í okkar gögnum,“ segir Birna. Á næstu vikum verður verkefnið rammað betur inn þannig að það nái yfir allan bankann.

Þá segir hún að verkefnamiðuð vinnuaðstaða, sem þýðir að enginn starfsmaður er með fast sæti heldur velur hver og einn sér sæti innan síns svæðis í samræmi við verkefnin, hafi komið að miklu gagni til að takast á við þær áskoranir sem COVID skapaði.

Birna bendir á að niðurstaða úr síðustu vinnustaðagreiningu bankans hafi sýnt mestu starfsánægju sem mælst hefur innan bankans frá því fyrir hrun.

Hefði viljað selja Borgun fyrr

Greiðslumiðlunin Borgun var seld fyrir 1,3 milljarða króna fyrr á þessu ári, en Íslandsbanki átti 63,5 prósenta eignarhlut í félaginu. Verðið var nokkuð undir þeim væntingum sem eigendur félagsins höfðu áður haft. Í árslok 2015 fékk Borgun ráðgjafarfyrirtækið KPMG, eins og fram kom í fjölmiðlum á sínum tíma, til að verðmeta félagið í tengslum við yfirtökutilboð breska greiðslukortafyrirtækisins UPG, en tilboði þess var ekki tekið. Niðurstaða verðmatsins var að heildarvirði fyrirtækisins næmi 19 til 26 milljörðum.

„Það er frábær árangur að hafa náð að klára söluferlið í miðjum heimsfaraldri að mínu mati. Ég hefði að vísu viljað selja eignarhlutinn fyrr – og þá hefðum við örugglega fengið betra verð – en það þýðir ekkert að svekkja sig á því,“ segir Birna.

Athugasemdir