Nýr veitingastaður, með áherslu á kjúklingarétti og sjávarfang í „götubita“ stíl, opnar í Mathöllinni á Hlemmi í október. Nýi staðurinn kemur í staðinn fyrir Jómfrúna og Jæja sem kveðja Hlemm. Birgir Reynisson og Herborg Svana Hjelm er nýju kaupendurnir.

Jakob E. Jakobsson, betur þekktur sem Jakob í Jómfrúnni, eigandi Jómfrúarinnar og Jæja, sagði reksturinn á Hlemmi vera þungan og ætli hann að einbeita sér að Lækjargötunni. Guðrún Berta Daníelsdóttir stjórnarformaður Hlemms mathallar segist sjá eftir Jómfrúnni og Jæja en sé þó spennt fyrir nýja samstarfinu með Birgi og Herborgu.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu en ótrúlega ánægð með samstarfið við Jakob fram að þessu og munum eiga áfram gott samstarf við hann. Við sjáum eftir þeim en erum að sama skapi að fá annan spennandi kost. Það hefur aldrei áður verið kjúklingastaður á Hlemmi,“ segir Guðrún.

Þægindamatur fyrir veturinn

„Hlemmur var svolítið utan jaðar áður en er nú orðinn miðpunktur. Við finnum sérstaklega fyrir því hvað íbúar í nágrenninu eru ánægðir að hafa okkur.“

Fjallað var um í fjölmiðlum að Rabbar barinn væri að yfirgefa Hlemm Mathöll. Sömu eigendur verða þó áfram en ætla að prófa öðruvísi hugmynd með nýjum stað með áherslu á lasagna.

„Eigendur Rabbar barsins verða áfram en þau ætla að breyta um concept. Þau hafa skoðað mikið hvað landinn sækist í þegar veturinn fer að skella á og þeir eru að hugsa um að fara að bjóða upp á lasagna, bæði kjöt- og grænmetislasagna,“ segir Guðrún. „Lasagna er alveg frábær götubiti,“ bætir hún við.

Rabbar barinn seldi ferskt grænmeti, kryddjurtir og blómvendi og var þekkt fyrir portóbellósamloku í súrdeigsbrauði.

Mathöll í endalausri þróun

Guðrún segist vera óhrædd að fara í breytingar og prófa sig áfram með rekstraraðilum. Böðvar Lemax, eigandi Rabbar barsins, sagði í samtali við Vísi að viðskiptavinirnir hafi ekki verið nægjanlega margir.

„Við erum fyrsta mathöllin á Íslandi og við erum óhrædd við að prófa okkur áfram. Maður veit aldrei upp á hár hvað virkar frá fyrsta degi,“ segir Guðrún.

Hlemmur mathöll opnaði 19. ágúst 2017 á menningarviku. Guðrún segir að Íslendingar hafi tekið ótrúlega vel í nýja matarmenningu.

„Íslendingar áttuðu sig strax á þessu. Fyrsta helgin var ein besta helgin í okkar lífi. Það var ótrúlega gaman. Hlemmur var svolítið utan jaðar áður en er nú orðinn miðpunktur. Við finnum sérstaklega fyrir því hvað íbúar í nágrenninu eru ánægðir að hafa okkur,“ segir Guðrún.

„Mathöll er í endalausri þróun, tískustraumar og smekkir breytast og við erum óhrædd við það en einnig íhaldssöm að halda í sumt. Við viljum hafa kaffið og bakarí, þessar grunnþarfir. Við munum alltaf vera í einhverjum breytingum og ég held það sé bara hollt og gott.“