Kynninga­fundur App­le, þar sem nýr iP­hone verður kynntur til leiks meðal annars, fer fram í dag klukkan 17 að ís­lenskum tíma í höfuð­stöðvum App­le í Kali­forníu.

Sam­kvæmt tækni­frétta­síðunni Tech­Radar mega neyt­endur búast við því að símarnir verði nokkuð líkir Ip­hone X línunni frá því í fyrra. Ó­visst er hvað nýju týpurnar muni heita en búist er við því að þær verði: iP­hone 11, iP­hone 11 Max og iP­hone 11R.

Bætt mynda­vél og þráð­laus hleðsla

Helsta breytingin með komu iP­hone 11 verður að öllum líkindum bætt mynda­véla­kerfi en á iP­hone 11 og 11 Max verða þrjár mynda­vélar og tvær mynda­vélar verða á iP­hone 11R. Búist er við því að iP­hone 11R verði ó­dýrari en hinir líkt og var með iP­hone XR í fyrra.

Einnig er búist við því að nýju týpurnar bjóði upp á þráð­lausa hleðslu fyrir önnur tæki. Þannig væri hægt að hlaða aðra síma og auka­tæki, til dæmis Air­Pods, þráð­laust með bak­hlið símans.

Eftirlíking TechRadar um hvernig iPhone 11 muni líta út.
Mynd/Future

Kynna nýtt stýri­kerfi

Auk þess sem nýr sími verður frum­sýndur verður nýjasta upp­færsla stýri­kerfisins fyrir iP­hone, iOS 13, til­kynnt, sem og nýtt stýri­kerfi fyrir iPad, iPa­dOS. Bæði stýri­kerfi hafa verið í boði í beta-út­gáfu frá því í sumar. Þar að auki má búast við nýrri týpu af App­le úrunum, þ.e. App­le Watch 5, og nýju stýri­kerfi fyrir þau, watchOS 6.

Ekki er búist við miklum nýjungum frá App­le í þetta sinn en það kemur í ljós seinna í dag. Horfa má á beina út­sendingu af fundinum á YouTu­be hér fyrir neðan.