Kynningafundur Apple, þar sem nýr iPhone verður kynntur til leiks meðal annars, fer fram í dag klukkan 17 að íslenskum tíma í höfuðstöðvum Apple í Kaliforníu.
Samkvæmt tæknifréttasíðunni TechRadar mega neytendur búast við því að símarnir verði nokkuð líkir Iphone X línunni frá því í fyrra. Óvisst er hvað nýju týpurnar muni heita en búist er við því að þær verði: iPhone 11, iPhone 11 Max og iPhone 11R.
Bætt myndavél og þráðlaus hleðsla
Helsta breytingin með komu iPhone 11 verður að öllum líkindum bætt myndavélakerfi en á iPhone 11 og 11 Max verða þrjár myndavélar og tvær myndavélar verða á iPhone 11R. Búist er við því að iPhone 11R verði ódýrari en hinir líkt og var með iPhone XR í fyrra.
Einnig er búist við því að nýju týpurnar bjóði upp á þráðlausa hleðslu fyrir önnur tæki. Þannig væri hægt að hlaða aðra síma og aukatæki, til dæmis AirPods, þráðlaust með bakhlið símans.

Kynna nýtt stýrikerfi
Auk þess sem nýr sími verður frumsýndur verður nýjasta uppfærsla stýrikerfisins fyrir iPhone, iOS 13, tilkynnt, sem og nýtt stýrikerfi fyrir iPad, iPadOS. Bæði stýrikerfi hafa verið í boði í beta-útgáfu frá því í sumar. Þar að auki má búast við nýrri týpu af Apple úrunum, þ.e. Apple Watch 5, og nýju stýrikerfi fyrir þau, watchOS 6.
Ekki er búist við miklum nýjungum frá Apple í þetta sinn en það kemur í ljós seinna í dag. Horfa má á beina útsendingu af fundinum á YouTube hér fyrir neðan.