Hluthafalisti Icelandair mun taka verulegum breytingum eftir hlutafjárútboð sem fór langt fram úr væntingum markaðarins. Fagfjárfestar sem voru stórir hluthafar fyrir útboðið ákváðu að taka ekki þátt í útboðinu á meðan aðrir bættu verulega við hlut sinn og nýir komu inn af þunga.

Stjórn Icelandair samþykkti yfir níu þúsund áskriftir að fjárhæð 30,3 milljarðar króna og var því ákveðið að nýta heimild til stækkunar útboðsins þannig að fjöldi seldra hluta verði 23 milljarðar. Nýjum hlutum fylgja 25 prósenta áskriftarréttindi eða sem nemur 5,75 milljörðum hluta.

Fréttablaðið tók saman yfirlit yfir þátttöku helstu fagfjárfesta í útboðinu. Sjóðir í stýringu Stefnis, sjóðastýringarfélags Arion banka, sem áttu samtals 12,25 prósenta hlut fyrir útboðið, tóku þátt samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Hlutur Stefnis mun þó minnka töluvert miðað við það sem áður var, eftir því sem Fréttablaðið kemst næst.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem var næststærsti hluthafinn með 11,8 prósenta hlut, tók ekki þátt. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins féll tillaga um að lífeyrissjóðurinn myndi skrá sig fyrir 2,5 milljarða króna hlut í útboðinu á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn greiddu atkvæði með og fjórir greiddu atkvæði gegn. Ef tillagan hefði verið samþykkt hefði Lífeyrissjóður verzlunarmanna verið með rúmlega 11 prósenta hlut í Icelandair í kjölfar útboðsins.

Þá hafði um nokkurt skeið verið vitað að PAR Capital, sem var stærsti hluthafinn í Icelandair þegar kórónafaraldurinn skall á, myndi ekki taka þátt. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn hafði selt sig niður í þriðja sæti hluthafalistans og nam eignarhluturinn 10 prósentum fyrir útboðið.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, staðfesti þátttöku sjóðsins í samtali við Viðskiptablaðið en hann gaf ekki upp hversu há fjárhæðin væri. Gildi var fjórði stærsti hluthafi Icelandair með 7,24 prósenta hlut fyrir útboðið.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins og fjórði stærsti hluthafi Icelandair Group, skráði sig fyrir um 2 milljörðum hluta í því skyni að verja 8,25 prósenta eignarhlut sinn.

Eignarhlutur Brúar lífeyrissjóðs hækkar úr 1,77 prósentum í tæp 4,8 prósent

Birta lífeyrissjóður, sem var sjötti stærsti hluthafi Icelandair Group með rúmlega 7 prósenta hlut, ákvað að taka ekki þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins. „Samstaða var um þessa ákvörðun bæði hjá starfsmönnum og stjórn eftir ítarlega skoðun á málinu þar sem mörg fagleg sjónarmið vógust á,“ sagði í tilkynningunni frá sjóðnum.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fór með 2,8 prósenta hlut, tók ekki þátt í útboðinu samkvæmt svari frá Arnaldi Loftssyni, framkvæmdastjóra sjóðsins. Sama gildir um Festu lífeyrissjóð og Íslenska lífeyrissjóðinn en hvorugur var á listanum yfir tuttugu stærstu hluthafana fyrir útboðið.

Brú lífeyrissjóður tók þátt í útboðinu og fékk úthlutað 1.260 milljónum hluta. Þetta staðfestir Gerður Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúar, í samtali við Fréttablaðið. Eignarhlutur Brúar, sem var 1,77 prósent, hækkar því í tæp 4,8 prósent eftir útboðið.

Úlfar Steindórson stjórnarformaður og Bogi Nils Bogason forstjóri.
Fréttablaðið/Valli

Almenni lífeyrissjóðurinn tók þátt í útboði Icelandair Group samkvæmt svari frá Kristjönu Sigurðardóttur fjárfestastjóra og fékk rúma 441 milljón í sinn hlut. Eignarhlutur sjóðsins eykst því úr 1,5 prósentum upp í 1,8 prósent.

Lífsverk, sem átti ekki teljandi hlut í Icelandair, sótti um 400 milljónir króna í útboðinu og fékk úthlutaðar 252 milljónir, sem samsvarar tæplega 0,3 prósentum af eignum samtryggingardeildar.

„Samhljómur var meðal stjórnar og eignastýringar Lífsverks að taka þátt í hlutafjárútboðinu,“ sagði í tilkynningu Lífsverks.

Eftirlaunasjóður FÍA, sem átti smávægilegan hlut fyrir útboðið, keypti fyrir 284 milljónir.

Íslandssjóðir, dótturfélag Íslandsbanka tóku „vel þátt“ í útboðinu að sögn Kartans Smára Höskuldssonar framkvæmdastjóra en hann gaf ekki upp fjárhæðirnar. Félagið var ekki á listanum yfir tuttugu stærstu hluthafana fyrir útboðið. Ekki fengust svör frá Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans, við fyrirspurn um þátttöku en félagið átti 1,9 prósenta hlut fyrir.

Þá segir Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs, sem átti 1,36 prósent, að sjóðurinn hafi tekið þátt í útboði Icelandair „í samræmi við hlutafjáreign sína í félaginu“. Má því ætla að Stapi hafi keypt hluti í útboðinu fyrir um 240 milljónir króna.

Leiðrétting: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var áætlað að Stapi hefði keypt fyrir 400 milljónir en rétta talan er 240 milljónir.

Útgefið hlutafé Icelandair, sem verður aukið úr 5,4 milljörðum í 28,4 milljarða í kjölfar útboðsins, mun þynnast niður í um 19 til 21 prósent og ef nýir fjárfestar félagsins nýta sér þau áskriftarréttindi sem fylgja með bréfunum, sem hægt verður að gera í einu lagi eða skrefum til allt að tveggja ára, þynnist eignarhlutur hluthafa niður í allt að 16 prósent.

Pálmi keypti hlut

Pálmi Haraldsson staðfesti í samtali við Fréttablaðið að hann hefði tekið þátt. Eignarhlutur Pálma í Icelandair, sem nam um 3 prósentum, er meðal annars í gegnum eignarhaldsfélögin Sólvöll og Ferðaskrifstofu Íslands. Pálmi var á sínum tíma stór hluthafi í Icelandair og sat í stjórn flugfélagsins á árunum 2003 og 2004.

Vænting ehf., fjárfestingafélag Bláa lónsins, sem var með 1,3 prósenta hlut, tók hins vegar ekki þátt samkvæmt svari frá Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra hjá Bláa lóninu. Þá náðist ekki í Högna Pétur Sigurðsson, fjárfesti og eiganda Hard Rock Cafe á Íslandi, sem varð stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Icelandair í vor. Hann átti þá samanlagt 3,4 prósent.

Furðar sig á afstöðu fulltrúa launþega í stjórn LIVE

Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að andstæðir pólar hefðu tekist á innan stjórnarinnar við mat á því hvort taka ætti þátt í hlutafjárútboði Icelandair.

„Við fulltrúar atvinnurekenda vorum samstíga í því að styðja þátttöku,“ útskýrir Guðrún.

Hún sagðist hafa átt von á því að stjórnin, sem telur átta manns, myndi standa saman að því að verja störf félagsmanna og þá hagsmuni sem eru undir fyrir íslenskt efnahagslíf að tryggja rekstur Icelandair.

„Þarna er um að ræða lífsviðurværi þúsunda starfsmanna og starfsfólk Icelandair er einn stærsti greiðandi félagsgjalda til VR og þar með til lífeyrissjóðsins. Það kom mér því á óvart að það hafi verið fulltrúar atvinnurekenda í sjóðnum sem töluðu fyrir mikilvægi þess að verja störf félagsmanna en ekki fulltrúar launþegahreyfingarinnar,“ sagði Guðrún.