Benedikt Gíslason, nýr bankastjóri Arion banka, segir að það sé ekki endilega markmiðið að vera stærsti bankinn en hins vegar skipti máli að hann sé „framsækinn“ og „skili hluthöfum okkar arði.“

Þetta kemur fram í tölvupósti sem Benedikt, sem hóf störf í byrjun vikunnar, sendi á starfsmenn bankans í gær og Markaðurinn hefur undir höndum.

Þar segir hann að nýju fólki fylgi alltaf einhverjar áherslubreytingar. „Ég mun þó ekki ana að neinu heldur taka þann tíma sem þarf með stjórn og starfsfólki til að þróa og móta áherslu í stefnu og starfsemi bankans.

Við viljum almennt styrkja stöðu okkar. Við þurfum ekki endilega að vera stærsti bankinn,“ útskýrir Benedikt, „en við viljum hins vegar vera framsækin, skila hluthöfum okkar arði og veita viðskiptavinum frábæra fjármálaþjónustu. Í raun er meginverkefnið framundan að ákveða hvernig við náum þessum markmiðum sem best.“

Arðsemi bankans hefur verið afar dræm undanfarin misseri og á fyrsta ársfjórðungi nam arðsemi eigin fjár aðeins rúmlega tveimur prósentum. Að Valitor undanskildu, en greiðslumiðlunarfyrirtækið er í eigu Arion banka, var arðsemin hins vegar 6,2 prósent.

Þá nefnir Benedikt, sem sat í stjórn bankans áður en hann var ráðinn bankastjóri, þá miklu gerjun í fjármálageiranum sem eigi eftir að einkenna starfsemina á næstu árum.

„Við þurfum að vera virkir þáttakendur í þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. Arion banki hefur reyndar verið að gera frábæra hluti, sérstaklega þegar kemur að stafrænum lausnum, og það stendur ekkert annað til en að halda áfram á þeirri braut. Ef eitthvað er þá eigum við að bæta í, til dæmis varðandi stafræna fyrirtækjaþjónustu.“

Kaupþing að selja allan hlut sinn í bankanum

Markaðurinn greindi frá því fyrr í vikunni að bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem fer núna með sextán prósenta hlut í Arion banka, muni kaupa tæplega helminginn af tuttugu prósenta hlut Kaupþings í bankanum en eignarhaldsfélagið er nú að ganga frá sölu á öllum bréfum sínum í Arion banka. Eftir kaupin verður Taconic, sem á jafnframt um 48 prósenta hlut í Kaupþingi, stærsti eigandi Arion banka með í kringum fjórðungshlut.

Aðrir helstu kaupendur að hlut Kaupþings í Arion banka, samkvæmt heimildum Markaðarins, eru fjárfestingafélagið Stoðir, sem á fyrir tæplega fimm prósenta hlut, og Lífeyrissjóður verslunarmanna (LV) en sjóðurinn átti í árslok 2018 aðeins um 0,4 prósenta hlut í bankanum.

Beðið er nú eftir því, samkvæmt heimildum Markaðarins, að staðfesting fáist frá fjármálaráðuneytinu um að ríkið ætli ekki að stíga inn í viðskiptin og nýta sér forkaupsrétt sinn.