Báðar verslanir færa sig um set innan svæðisins en ELKO hefur starfrækt verslun í Skeifunni 7 frá árinu 2004 og Krónan verið til húsa í Skeifunni 11 frá byrjun árs 2019. Krónan var einnig með verslun í Skeifunni 5 á árum áður, þar sem Vínbúðin er nú til húsa. Með nýju verslunarhúsnæði stækka verslanir Krónunnar og ELKO í Skeifunni töluvert, sem gerir þeim kleift að bjóða upp á aukið vöruúrval og betra aðgengi.
Samhliða opnun nýrra verslana Krónunnar og ELKO opnar einnig í rými Krónunnar sushistaðurinn Tokyo Sushi og nýi pizzastaðurinn OLIFA – La Madre Pizza.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar:
„Við höfum beðið í ofvæni eftir því að opna þessa glæsilegu verslun á besta stað í Skeifunni, sem iðar af mannlífi alla daga og er orðin einn af öflugustu verslunarkjörnum landsins. Þetta er ein af okkar stærstu verslunum þar sem viðskiptavinir fá aðgengi að breiðasta vöruúrvali Krónunnar á sama hagstæða verði og í öðrum Krónuverslunum. Skannað og skundað, sjálfsafgreiðslulausn Krónunnar verður að sjálfsögðu í boði frá fyrsta degi, en lausnin er nú aðgengileg í 15 verslunum Krónunnar.“
Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri ELKO:
„Við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum í nýju og stærra húsnæði í nýuppgerðu fyrrum húsnæði Myllunnar. Aðgengi að nýju versluninni er mun betra en á fyrri stað og verslunin sjálf ein glæsilegasta raftækjaverslun landsins. Nýja verslunin er í sama endurhannaða útliti og verslanir ELKO á Akureyri og í Leifsstöð, en sú endurhönnun tekur smám saman yfir í öllum okkar verslunum. Aukið rými á nýjum stað gerir okkur kleift að bæta enn frekar þjónustu við okkar viðskiptavini og auka vöruúrval til muna.“
Bæði Krónan og ELKO fagna opnuninni í Skeifunni með margvíslegum hætti og eiga von á því að fjöldi gesta sæki verslanirnar heim í dag og næstu daga þar sem má finna fjölda opnunartilboða í báðum verslunum alla helgina.
Verslanir Krónunnar hafa verið starfræktar á Íslandi frá árinu 2000 og eru þær 25 talsins. Hjá Krónunni starfa um þúsund manns. ELKO, sem er stórmarkaður með raftæki og stærsta raftækjaverslun landsins, opnaði 28. febrúar 1998 og hefur frá upphafi verið leiðandi á sínu sviði á Íslandi. Hjá ELKO starfa um 135 manns. Auk vefverslunarinnar ELKO.is rekur ELKO þrjár verslanir á höfuðborgarsvæðinu, eina á Akureyri og svo verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Bæði Krónan og ELKO eru að fullu í eigu Festi hf.