Á pósthúsunum eru einnig til sölu umslög sem fóðruð eru með rifluðum pappír. Þau leysa af hólmi umslög með bóluplasti sem erfitt er að ná í sundur og endurvinna.

„Við völdum nýju plastpokana og umslögin eftir samráð við sérfræðinga. Þau eru aðeins fyrsti áfangi á langri leið og við munum áfram leggja okkur fram um að finna bestu og vistvænustu lausnirnar. Í hringrásarhagkerfi framtíðarinnar verða umbúðir eflaust ekki einnota heldur margnota, samanber burðarpokana sem öllum finnst nú sjálfsagt að grípa með sér í búðina," segir Eymar Plédel Jónsson, vörustjóri Íslandspósts.

Umbúðir úr pappír og pappa gætu virst hafa léttasta kolefnisfótsporið en ef bornar eru saman auðlindanotkun og kolefnislosun við framleiðslu á endurunnu plasti, hefðbundnu plasti og pappír eða pappa kemur í ljós að endurunnið plast er góður kostur. Á nýju umhverfisvænu plastpokunum eru upplýsingar um úr hverju þeir eru gerðir, til að auðvelda flokkunina og hvetja fólk til dáða. Það er vitaskuld í höndum viðtakenda pakka að koma umbúðunum í endurvinnslu.