Íslandsstofa og Business Sweden, systurfyrirtæki Íslandsstofu, hafa gert með sér samkomulag sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden. Samkomulagið opnar íslenskum fyrirtækjum fjölmargar dyr út í heim. Ekki bara stórum fyrirtækjum, heldur líka litlum og meðalstórum fyrirtækjum.


Fjölbreytt þjónusta


Viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar hafa til þessa veitt íslenskum fyrirtækjum margháttaða þjónustu og greitt götu þeirra í útlöndum en þeir eru til staðar á tólf erlendum mörkuðum. Nú bætist verulega við þann hóp en alls eru 450 starfsmenn á vegum Business Sweden í 42 löndum um allan heim. Hlutverk þeirra er að styðja við framgang sænskra fyrirtækja erlendis með ýmiss konar þjónustu á markaði. Með samkomulaginu er íslenskum fyrirtækjum nú gert kleift að nýta sér tiltekna þjónustu Business Sweden eins og um sænsk fyrirtæki væri að ræða.

Íslenska utanríkisþjónustan er kná, en hún er vissulega smá og mun aldrei geta boðið upp á það net landa sem við nú fáum aðgang að. Þetta þýðir að íslenskt fyrirtæki sem hefur áhuga á að hasla sér völl á erlendum markaði er nú komið með aðgang að þjónustuaðila sem getur unnið með fyrirtækinu á viðkomandi markaði. Þjónustan sem er í boði er víðtæk; að finna samstarfsaðila, stofna dótturfélag, bjóða starfsaðstöðu á skrifstofu Business Sweden, aðstoð við skattamál og ráðningu starfsfólks og svo mætti lengi telja.


Mikilvægt samstarf


Íslandsstofa hefur það hlutverk að markaðssetja Ísland á erlendri grundu. Meginverkefnið er að miðla áhrifaríkum sögum sem skapa traust á landi og þjóð. Að greiða fólki og fyrirtækjum leið út í heim og auka eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu. Hvort sem er um að ræða íslenskar sjávarafurðir, listir og menningu, ál eða hátækni svo eitthvað sé nefnt.

Business Sweden er systurstofa Íslandsstofu í Svíþjóð og er ánægjulegt að geta nú fært út kvíarnar. Báðir aðilar vænta mikils af samstarfinu og verðmætt er að styrkja bæði samstarf Norðurlandanna og kynningarstarf útflutningsgreina á alþjóðlegum mörkuðum ásamt því að styrkja ímynd Norðurlandanna á heimsvísu. Sterk ímynd hjálpar bæði norrænum fyrirtækjum og gerir Norðurlöndin áhugaverðari valkost fyrir erlenda fjárfesta.

Þetta eru kjöraðstæður til þess að hleypa af stokkunum samstarfi Íslandsstofu og Business Sweden til þess að styðja við fyrirtæki til að auka sölu á erlendum mörkuðum.

Auk þess að opna dyr fyrir íslensk fyrirtæki út í heim felst í samstarfinu að stofurnar munu vinna saman í markaðs- og kynningarmálum í sértækum verkefnum þar sem þau eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Sú aðstoð sem býðst getur stytt leið inn á markaði og auðveldað fyrirtækjunum að koma fljótt undir sig fótunum í framandi umhverfi.


Nýtt viðskiptalandslag


Nú þegar markaðir eru að opnast á ný standa fyrirtæki frammi fyrir nýju og breyttu viðskiptalandslagi. Þetta eru kjöraðstæður til þess að hleypa af stokkunum samstarfi Íslandsstofu og Business Sweden til þess að styðja við fyrirtæki til að auka sölu á erlendum mörkuðum.

Samstarfið er þegar hafið og eru fyrstu íslensku fyrirtækin byrjuð að skoða þá möguleika sem í boði eru. Nú hækkar sól á lofti og það er tekið að birta til í efnahagslífinu. Ferðaþjónustan hefur legið í híði undanfarið ár en senn opnast himnarnir á ný og líf færist í þá innviði sem hefur verið fjárfest í á undanförnum árum.

Jákvæðar horfur eru meðal íslenskra vaxtarfyrirtækja sem hyggja á landvinninga á næstu mánuðum og verðmæt störf munu skapast. Á seinasta ári var mikill vöxtur í útflutningstekjum af hugverkaiðnaði. Þar er orðin til ný og mikilvæg stoð, dýrmætar gjaldeyristekjur sem munu skjóta styrkari stoðum undir samfélagið. Það þarf ekki að finna upp hjólið. Það hefur þegar verið fundið upp. Leggjum af stað og sækjum fram.

Höfundur er framkvæmdastjóri Íslandsstofu.