Sigrún Jenný Barðadóttir, stjórnarformaður og meðeigandi handverksbrugghússins Eimverks, segir að nýja regluverkið þar sem sala frá brugghúsunum var heimiluð hafi mikla þýðingu fyrir Eimverk.

„Fyrst og fremst gefur þetta okkur kost á að sinna heimamarkaðnum betur. Bæði gagnvart túristum og Íslendingum. Það hefur verið beinlínis bagalegt og kjánalegt að geta ekki sinnt einfaldri þörf eins og að selja viskí, sem er oft gefið sem gjöf, eða túristum sem vilja taka með sér heim og njóta á ferðalögum,“ segir Sigrún Jenný og bætir við að ÁTVR hafi engan veginn getað sinnt svona vöruflokkum með margar sérvörur og sérútgáfur og úrval af viskíi í ÁTVR er mjög takmarkað.

Aðspurð hvort hún vilji sjá fleiri breytingar segir Sigrún Jenný að svo sé og það vanti töluvert upp á að Ísland verði á pari við þróun erlendis þegar kemur að stuðningi við staðbundna framleiðslu og smáframleiðendur.

„Eitt af megin baráttumálunum sem við munum berjast fyrir á næstunni í samstarfi við Samtök handverksbrugghúsa og samtök eimingarhúsa er að fá lækkun á áfengisgjöldum fyrir smáframleiðendur, EES-samningur gerir ráð fyrir þessu og í dag nýta öll lönd Evrópu þessa heimild nema Ísland og Svíþjóð.“

Eimverk er fjölskyldufyrirtæki, stofnað með þann tilgang að framleiða íslenskt viskí frá grunni úr íslensku hráefni. Hugmyndin að fyrirtækinu mótaðist og fyrstu prófanir og tilraunir hófust 2009. Fyrirtækið var síðan formlega stofnað 2011 en vöruþróun og uppbygging verksmiðju tók þrjú ár til viðbótar.

Aðsend mynd.

„Fyrsta varan okkar, Vor Gin, kom ekki á markað fyrr en 2014 og Flóki viskí ekki fyrr en 2018. Við seljum víða í dag en okkar stærstu markaðir eru Þýskaland, Bandaríkin, Kína og Japan. Eftirspurn er góð og við sjáum fram á góðan áframhaldandi vöxt. Við notum í dag um 100 tonn af íslensku byggi árlega í framleiðslu á Flóka viskí, úr því fást um 100 þúsund flöskur sem í dag eru fluttar til 25 landa.“

Sigrún bætir við að byggið sem notað er í framleiðsluna komi frá bændum á Suðurlandi.

„Við leggjum mikið upp úr því að nota þetta frábæra íslenska hráefni, það skapar okkur sérstöðu og er grunnurinn í árangri okkar. Sennilega er Flóki viskí grænasta viskí í heimi.“

Sigrún segir að tækifæri til kynninga og auglýsinga séu afar snúin fyrir innlenda framleiðendur á meðan erlendir framleiðendur koma sínum skilaboðum til Íslendinga með ýmsum hætti.

„Vefverslun er ekki endilega lykilmál fyrir okkur, en það er nokkuð ljóst að taka þarf á þeim málum og jafna rétt innlendra og erlendra aðila.“

Samhliða framleiðslu hefur móttaka gesta í verksmiðjuheimsókn verið vaxandi þáttur í rekstrinum.

„Distillery visit til viskíframleiðenda er þekkt víða og eftirspurn eftir heimsóknum til okkar er sterk. Við fáum um 5.000 gesti árlega í heimsóknina sem er einn af vinsælustu viðkomustöðum ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu.“

Sigrún segir að rekstur Eimverks hafi gengið nokkuð vel. Fyrirtækið hafi skilað hagnaði frá upphafi ef frá er talið vandræðaárið 2020 vegna Covid. Félagið hafi komist nokkuð vel í gegnum það með þeirri aðstoð sem var í boði frá yfirvöldum og viskíið náði að eldast á meðan.

Spurð hvert fyrirtækið stefni segir Sigrún Jenný að stefnan sé fyrst og fremst tekin á nýja markaði.

„Við erum að vaxa, fórum nýlega inn á Kínamarkað og höfum tekið þar þátt í sýningu og kynningum undanfarin ár með stuðningi Íslandsstofu. Við stefnum á að tífalda framleiðsluna á næstu fimm til tíu árum en viskí er langtímaverkefni. Við erum líka að hugsa í kynslóðum og höfum plantað eikartrjám til að geta orðið sjálfbær um eikartunnur á næstu öld.“