Bandarísk tæknifyrirtæki þurfa frá og með 1. september næstkomandi að greiða tíu prósenta innflutningstoll á öllum þeim snjall- og heilsuúrum, snjallhátölurum og Bluetooth-heyrnartólum sem þau láta framleiða fyrir sig í Kína.

The Verge greinir frá þessu en um er að ræða tolla sem ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta leggur á vegna yfirstandandi tollastríðs við Kína. Hins vegar stendur til að fresta lagningu tolla á snjallsíma og fartölvur fram í desember.

Búist er við því að nýju tollarnir bitni illa á tæknirisanum Apple. Fyrirtækið lætur framleiða vörur á borð við AirPods, Apple Watch og HomePod í Kína en naut, líkt og ýmis fyrirtæki, undanþágu frá tollum á síðasta ári.

Ekki liggur fyrir hvort verð muni hækka vegna nýju tollanna. Það gerðist í það minnsta ekki eftir að jafnhár innflutningstollur var lagður á hleðslutæki frá fyrirtækinu.