Þegar gengið er um erlendar stórborgir eru merki um breyttar verslunarvenjur á hverju strái. Þau augljósustu eru auð verslunarpláss sem nú eru í hrönnum við götur sem löngum hafa verið meðal þeirra allra vinsælustu. Engu máli skiptir hvort göngutúrinn er um Soho í New York eða samnefnt hverfi í London. Pláss sem áður var slegist um standa nú auð og pappaspjöld fyrir gluggum. Sagt er til að mynda að í New York hafi að jafnaði um tuttugasta hvert pláss staðið autt. Nú sé staðan sú að fimmta hvert rými er laust til útleigu.

Það kann að koma sumum á óvart, en ástæðan fyrir því að hefðbundin verslun gengur verr en áður á eftirsóttustu stöðum veraldar er hvorki skortur á bílastæðum, né aukin áhersla borgaryfirvalda á gangandi eða hjólandi.

Nei, orsökin leynist í breyttum verslunarvenjum. Ekki bara sækja neytendur varning sinn í auknum mæli á internetið, heldur leggja þeir einnig minni áherslu en áður á magnkaup. Tískubransinn hefur til að mynda breyst þannig að neytendur vilja frekar kaupa færri flíkur og vandaðri, en fleiri sem jafnvel eru allt að því einnota. Slíkar áherslur ríma líka betur við umhverfisverndarsjónarmið, sem nú fer mikið fyrir.

Fyrir á fleti er svo húsnæðiskerfi, sem byggist á gömlum tíma, og þungbærar opinberar álögur. Á tímum breyttrar neyslu er því oft á tíðum ómögulegt fyrir rekstrar­aðila að standa undir hvoru tveggja, himinhárri leigu og hinum ýmsu opinberu gjöldum. Auðvitað finnst engin galdrauppskrift á einni nóttu. Svo virðist hins vegar sem neytendur leggi aukna áherslu á að einhvers konar upplifun fylgi verslunarferðunum.

Á því hafa gamalgrónu risaverslanirnar í London kveikt. Bæði Harrods og Selfridges skila hverju metuppgjörinu á fætur öðru. Sú síðarnefnda skilaði metafkomu árið 2018 og velti tæpum tveimur milljörðum punda. Meðal nýstárlegra leiða sem farnar voru á árinu til að laða að kúnna var að koma upp hjólabrettarampi innanhúss og setja upp listaverkasýningu með Damien Hirst.

Verslun, skemmtun og upplifun mætast. Það er kannski lykillinn.