Auglýsingastofan Brandenburg kynnir þrjá nýja stjórnendur á stofunni. Um er að ræða þaulreynda hönnuði sem starfað hafa á Brandenburg um árabil við góðan orðstír og unnið til fjölda verðlauna. Breytingarnar eru liður í því að styrkja listræna stjórnun stofunnar enn frekar og halda áfram að fókusera á árangursdrifnar hugmyndir og kraftmikla uppbyggingu vörumerkja.

Dóra Haraldsdóttir er nýr aðstoðarhönnunarstjóri (e. Associate Creative Director). Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2016 og hefur unnið á Brandenburg frá sama ári ásamt því að hafa starfað á Brandenburg á meðan hún var í námi. Dóra hefur stýrt stórum sem smáum verkefnum og leitt vinnu fyrir viðskiptavini eins og Nova, Kjörís og Krabbameinsfélagið.

Gísli Arnarson tekur einnig stöðu aðstoðarhönnunarstjóra (e. Associate Creative Director) en hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2013. Gísli hóf störf á Brandenburg árið 2014 og gegnir einnig hlutverki formanns í Félagi íslenskra teiknara (FÍT). Gísli hefur stýrt vinnu fyrir viðskiptavini á borð við flugélagið Play, Orkusöluna og Orkuna.

Gunnhildur Karlsdóttir er nýr umsjónarhönnuður (e. Art Director). Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2004 og var ráðin til starfa á Brandenburg 2014. Í millitíðinni starfaði Gunnhildur á auglýsingastofunum Góðu fólki og Fíton. Gunnhildur hefur unnið fyrir marga af stærstu viðskiptavinum stofunnar þar á meðal Domino’s og Bioeffect.

Jón Ari Helgason, hugmynda- og hönnunarstjóri Brandenburgar (e. Creative Director), segir breytinguna eiga eftir að styrkja stofuna enn frekar. „Dóra, Gísli og Gunnhildur hafa verið með okkur lengi og búa yfir mikilli reynslu. Þeirra framlag hefur verið dýrmætt og eðlilegt næsta skref að auka vægi þeirra enn frekar innan fyrirtækisins. Það sýnir styrk Brandenburgar að starfsmenn geti vaxið í starfi innan fyrirtækisins og orðið sterkir stjórnendur,“ segir Jón Ari að lokum.

Hjá Brandenburg starfa tæplega 40 sérfræðingar á sviði vörumerkjaráðgjafar, hönnunar, hugmyndavinnu og textagerðar auk þess að sjá um birtingar, kaup og ráðgjöf gegnum snjallbirtingafyrirtækið Datera.