Rakel Óttarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og upplýsingatækni og Sylvía Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri þjónustu og markaðsmála hjá Icelandair Group. Þær munu taka sæti í framkvæmdastjórn félagsins og leiða tvö svið sem eru partur af nýju skipulagi sem kynnt var í lok síðasta árs. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Icelandair.

„Sylvía Kristín kemur aftur til liðs við Icelandair Group eftir að hafa starfað sem fram­kvæmda­stjóri við­skipta­þróunar og markaðs­mála hjá Origo síðast­liðið ár. Sylvía starfaði hjá Icelandair á árunum 2018 til 2021, fyrst sem for­stöðu­maður stuðnings­deildar flug­rekstrar og síðar sem for­stöðu­maður leiða­kerfis fé­lagsins,“ segir í til­kynningunni.

Hún starfaði hjá Lands­virkjun frá árinu 2015 þar sem hún var meðal annars deildar­stjóri jarð­varma­deildar á orku­sviði. Áður starfaði hún hjá höfuð­stöðvum Amazon í Evrópu um fimm ára skeið, fyrst við rekstur og á­ætlana­gerð og síðan við Kind­le deild fyrir­tækisins þar sem hún sá um við­skipta­greind, markaðs­mál og vöru­þróun fyrir vef­bækur. Sylvía er með M.Sc. próf í operational research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðar­verk­fræði frá Há­skóla Ís­lands. Sylvía er stjórnar­for­maður Ís­lands­sjóða.

Sylvía Kristín Ólafs­dóttir.

Rakel hefur starfað sem fram­kvæmda­stjóri upp­lýsinga­tækni hjá Al­vot­ech síðan seinni hluta árs 2020 og var áður yfir­maður upp­lýsinga­tækni­sviðs og al­þjóð­legrar verk­efna­stofu Össurar (CIO and VP of Global Program Office).

Fyrir þann tíma, starfaði hún í um 14 ár hjá Arion banka, þar sem hún var meðal annars fram­kvæmda­stjóri þróunar- og markaðs­svið frá 2011 og fram­kvæmda­stjóri upp­lýsinga­tækni­sviðs frá 2016 þar sem hún leiddi mótun og fram­kvæmd staf­rænnar stefnu bankans. Rakel er með MBA gráðu frá Duke Uni­versity í Banda­ríkjunum og B.Sc. gráðu í tölvunar­fræði frá Há­skóla Ís­lands.

Rakel Óttarsdóttir.

„Það er á­nægju­legt og mikill styrkur fyrir fé­lagið að fá Sylvíu og Rakel til liðs við okkur til að leiða tvö mikil­væg svið innan fé­lagsins. Sylvía þekkir Icelandair og flug­rekstrar­um­hverfið mjög vel eftir fyrri störf hjá okkur og mun leiða þjónustu- og markaðs­mál þar sem höfuð­á­hersla er lögð á upp­lifun við­skipta­vina og að styrkja Icelandair vöru­merkið enn frekar. Rakel kemur með mikla reynslu inn í fé­lagið á sviði staf­rænnar þróunar og upp­lýsinga­tækni og mun meðal annars leiða staf­ræna veg­ferð fé­lagsins með það að mark­miði að stuðla að ein­földu og á­nægju­legu ferða­lagi fyrir við­skipta­vini okkar og leggja grunninn að bættri nýtingu gagna við á­kvarðana­töku,“ er haft eftir Boga Nils Boga­syni, for­stjóra Icelandair Group, í til­kynningunni.

Bogi Nils Bogason framkvæmdastjóri Icelandair Group.
Fréttablaðið/Stefán