Töluvert útflæði var vegna erlendrar nýfjárfestingar á síðasta fjórðungi ársins 2020 sem að mestu má rekja til sölu erlends aðila á innlendum ríkisskuldabréfum. Á árinu 2020 var hrein skráð nýfjárfesting neikvæð um 57 milljarða króna en árið 2019 var hún jákvæð um 29 milljarða króna. Þetta kemur fram í Peningamálum.

Fram kom í Markaðnum í október að BlueBay Asset Management, eitt stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu, hafi á liðlega þremur mánuðum selt íslensk ríkisskuldabréf fyrir nærri 50 milljarða króna.

Eftir söluna megi ætla, sagði í annarri frétt sem birtist í Markaðnum í nóvember, að vægi erlendra sjóða hafi lækkað úr tólf prósentum í um fimm prósent. Það væri umtalsvert lægra hlutfall en í samanburði við nýmarkaðsríki þar sem eignarhlutur erlendra fjárfesta á innlendum skuldabréfamörkuðum er að meðaltali um tuttugu prósent.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sagði í frétt í Markaðnum í janúar að atvinnuvegafjárfesting hafi dregist saman frá árinu 2018, eða áður en COVID-19 heimsfaraldurinn kom til sögunnar.

„Óháð þeim efnahagsvanda sem fylgir COVID-19 ættum við að leita leiða til að auka erlenda fjárfestingu hér á landi. Kostir þess eru margvíslegir. Með auknu fjármagni fjölgar til dæmis möguleikum til innlendrar fjárfestingar, innlendur mannauður eflist með samstarfi við erlenda sérfræðinga og áhættu er dreift á fleiri hendur,“ sagði hún.

Anna Hrefna vakti athygli á að mun meiri hömlur væru á beinni erlendri fjárfestingu á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum OECD.