Verslun 66°Norður í London verður sú þriðja sem fataframleiðandinn opnar utan Íslands en fyrir eru tvær verslanir í Kaupmannahöfn.

Helgi Rúnar Óskarsson forstjóri segir undirbúning hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið. „Við höfum lagt áherslu á að vanda okkur í þessu. Við höfum í raun verið tilbúin í talsverðan tíma en ákváðum að bíða af okkur heimsfaraldurinn. Þetta er í raun mjög rökrétt skref á þessum tímapunkti.“

London hefur verið leiðandi í fataiðnaði og smásölu á evrópskan mælikvarða og segir Helgi því um mikilvægt skref að ræða og stóra fjárfestingu. „Félagið stendur vel og er með sterkan efnahagsreikning. Það skiptir máli þegar stigið er inn á svo stóran markað. En við höfum unnið okkar heimavinnu og byggjum þessa ákvörðun á ítarlegum greiningum. Við vitum að breskur markaður er mjög móttækilegur fyrir okkar vörum og sjáum það greinilega í vefversluninni okkar sem dæmi. Þar eru Bretar stór hluti núverandi viðskiptavina okkar. Íbúar London eru meira að segja mjög áberandi,“ segir Helgi.

66°Norður opnaði sína fyrstu verslun í Kaupmannahöfn árið 2014. Fyrirtækið rekur tvær verslanir í borginni í dag og hefur átt í samstarfi við þarlenda fataframleiðendur og hönnuði undanfarin ár. „Okkur hefur gengið vel í Danmörku og vörumerkið er komið á kortið. Við áttum okkar besta ár í sölu úti í Danmörku í fyrra. Sem er merkilegt því verslanirnar voru lokaðar svo mánuðum skipti vegna faraldursins. Það er meðbyr með okkur og við finnum að vörumerkinu vex ásmegin.“

Helgi segir miklu máli skipta að hafa fulla stjórn á því hvernig vörumerki er byggt upp á nýjum markaði. „Það er helsti kosturinn við að opna eigin verslanir og þess vegna leggjum við mikla áherslu á það. Okkur er annt um vörumerkið og viljum styrkja stöðu okkar hægt og bítandi. Við sjáum klárlega fyrir okkur að opna fleiri verslanir í Bretlandi í framtíðinni en við tökum eitt skref í einu. Þetta er þolinmæðisvinna og mikilvægt að gera þetta rétt og vera raunsær.“

Verslun 66°Norður á Regent Street verður flaggskip fataframleiðandans. Helgi vonast til að geta tekið á móti fyrstu viðskiptavinunum í London fyrir lok september. „Við eigum eftir að fá húsnæðið afhent. Ef samningar ganga eftir og allt verður eins og um var samið þá á það að ganga upp. Við erum full eftirvæntingar og hlökkum til að taka þetta skref,“ segir Helgi Rúnar.