Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, segir að það hafi orðið alger viðsnúningur hjá verkalýðsforystunni hvað varðar viðhorf til lífeyrissjóðakerfisins.

„Ný forysta hefur séð sér hag í því að kynda undir gagnrýni á lífeyrissjóðina og sumir í forystusveitinni hafa frekar verið í að brjóta niður en að byggja upp. Það hefur smitað mjög mikið út frá sér“

„Eldri verkalýðsforingjar tóku sér fyrst og fremst það hlutverk að vera bakhjarl lífeyrissjóðakerfisins, unnu að umbótum á því innan kerfisins og tóku þátt í uppbyggingu þess.

Ný forysta hefur séð sér hag í því að kynda undir gagnrýni á lífeyrissjóðina og sumir í forystusveitinni hafa frekar verið í að brjóta niður en að byggja upp. Það hefur smitað mjög mikið út frá sér,“ segir hann í viðtali við Viðskiptablaðið.

Haukur hefur starfað hjá lífeyrissjóðnum í 34 ár og mun fara á eftirlaun í sumar.

„Auðvitað tökum við mark á gagnrýni þeirra og hlustum á það sem þeir segja. En margt af því finnst mér samt ekki vera jafn málefnalegt og maður skyldi kjósa og þeir gætu frekar tekið þátt í með okkur hinum að byggja upp öflugt kerfi,“ segir Haukur.

Stærsta áskorunin er lækkandi vaxtastig

Að hans sögn er sennilega stærsta áskorunin sem lífeyrissjóðir standa frammi fyrir lækkandi vaxtastig almennt. „Vaxtastigið hefur farið lækkandi síðustu áratugi bæði hér á landi og erlendis. Stærsta áskorun lífeyrissjóða verður að fóta sig í því umhverfi og reyna að ná þeirri ávöxtun sem lífeyrissjóðirnir hafa almennt miðað sitt uppgjör við,“ segir Haukur við Viðskiptablaðið.

Eignasafn lífeyrissjóðanna hefur alla jafna verið núvirt miðað við 3,5 prósenta raunávöxtun. „Að sama skapi er lækkun vaxta jákvæð fyrir sjóðfélaga okkar þó það komi ekki fram í þeim lífeyri sem þeir fá,“ segir hann í viðtalinu.