Í nýrri stjórn WomenTechIceland sitja Alondra Silva Muñoz, markaðsstjóri Kaptio, Ingibjörg Lilja “Ingsa” Þórmundsdóttir, meðstofnandi og forstjóri Orgz, Ólöf Kristjánsdóttir, yfirmaður markaðssviðs í tæknifyrirtæki, Randi Stebbins, meðstofnandi Ós Pressan, rannsakandi í IWEV, tæknirithöfundur hjá AGR Dynamics og Þóra Óskarsdóttir, forstöðukona Fab Lab Reykjavíkur, sem og stofnendur WomenTechIceland Valenttina Griffin og Paula Gould.
„Þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er ákveðið platform fyrir allar konur á landinu, til að skipta yfir í tæknigeirann,“ segir Valenttina Griffin, meðstofnandi samtakanna í samtali við Markaðinn. „Við höfum verið að ná til fólks sem hefur áhuga á tæknigeiranum, sérstaklega kvenna sem hafa ekki fengið tækifæri eða hafa ekki séð leiðina til að byrja að vinna þar eða sækja sér nám á þessu sviði.“
Að sögn Valenttinu felst starfið að stóru leyti í viðburðahaldi og fræðslu.
„Við hlökkum sérstaklega til ársins 2023 vegna þess að við erum að sækja um styrk sem við vonandi fáum, það á eftir að koma í ljós. Við erum með stórt verkefni sem mun ná alla leið til Egilsstaða. Það yrði frábært að fá þennan styrk og ná til enn fleiri kvenna og út fyrir höfuðborgarsvæðið,“ segir hún.
Aðspurð um aðstöðumun milli kynjanna í íslenska tæknibransanum svarar hún. „Já, þó að mun fleiri konur hafi sótt um að komast í nám í HÍ og HR, þá er það mun auðveldara fyrir karlmenn þegar komið er út á vinnumarkað. Sérstaklega hvað launin varðar.“
Að sögn Valenttinu eru Íslendingar komnir langt en þó sé tæknigeirinn ekki á þeim stað sem hann ætti að vera hvað varðar jafnrétti og launamál. „Þó að fyrirtækin séu að standa sig og taka til hjá sér þá erum við mjög langt frá launajöfnuði,“ segir hún.
Valenttina segir að lykillinn að því að laga launahallann felist í gagnsæi í launamálum og afnámi launaleyndar. „Mér finnst að allt þurfi að vera á kristaltæru. Það er oft svo mikil leynd yfir launum, þó að fyrirtæki séu komin með jafnlaunavottun. Fólk veit ekki hvort að það sé með sömu laun og starfsmenn af öðru kyni. Fólk veit ekki hver staðan er,“ svarar hún.
Fleiri konur hafa stigið inn í tæknibransann á síðustu árum, að sögn Valenttinu, og fyrirmyndum fjölgar. „Konur í dag sem vilja vera í tækni geta séð aðrar konur að stofna fyrirtæki í tæknigeiranum á Íslandi. Staðalmyndin er að breytast en samt eru langflestir karlar. Sérstaklega þegar að því kemur að stofna sprotafyrirtæki,“ segir hún.
Eru hindranir sem standa frekar í vegi fyrir konum?
„Ég held að aðalmálið sé að konur þurfa að standa með sér sjálfar og henda sér út í djúpu laugina. Stundum er það bara þannig.“
Upplýsingar um samtökin má finna á vef WomentechIcelandog áfacebook-síðu samtakanna.