Nýsköpunarfyrirtækið Taktikal hefur skipað nýja stjórn sem samanstendur af Írisi Örnu Jóhannsdóttur, Sigurði Orra Guðmundssyni og Soffíu Theódóru Tryggvadóttur. Þessi nýja stjórn mun styðja við sókn Taktikal á erlendum mörkuðum.

Fyrirtækið lauk fyrr á árinu 260 milljón króna fjármögnun frá vísisjóðnum Brunni vaxtasjóði II til vöruþróunar og sóknar á erlenda markaði.

Íris Arna starfar sem forstöðumaður skipulagsþróunar samstæðu Kviku og Director of Operations hjá Kvika Securities, dótturfélagi bankans í London. Hún er með cand. Jur. Gráðu frá Háskóla Íslands og LL.M. í banka- og fjármálalögfræði frá London School of Economics and Political Science.

Íris er héraðsdómslögmaður og löggiltur verðbréfamiðlari á Íslandi og hefur einnig starfað á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins og í Frjálsa fjárfestingarbankanum. Hún var yfirlögfræðingur Virðingar hf. frá árinu 2016 og fram að samruna Virðingar og Kviku árið 2017, þar sem hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra Virðingar í samrunaferlinu. Á árunum 2012-2015 var hún yfirlögfræðingur H.F. Verðbréfa og þar á undan verkefnisstjóri hjá LOGOS lögmannsþjónustu frá árinu 2007.

Sigurður Orri er framkvæmdastjóri hjá NeckCare, íslensku nýsköpunarfyrirtæki, en sinnti áður stjórnarstörfum fyrir félagið. Hann starfaði áður sem yfirmaður sölumála (CCO) hjá Siteimprove, einu stærsta SaaS fyrirtæki Danmerkur, og leiddi þar sölu á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum. Sigurður starfaði einnig sem CCO hjá Airtame þar sem hann bar ábyrgð á sölu, þjónustu og markaðssetningu félagsins á alþjóðavísu.

Soffía Theódóra starfar sem fjárfestingastjóri hjá vísisjóðnum Brunni Ventures og situr í stjórn nokkurra sprotafyrirtækja sem Brunnur Ventures fjárfestir í. Hún kemur til Brunns í ár frá bandaríska Fortune 500 fyrirtækinu NetApp þar sem hún leiddi fyrst markaðssetningu félagsins á skýjalausnum þess og bar síðar ábyrgð á uppbyggingu vörumerkisins á heimsvísu. Soffía er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá sama skóla.

„Það er mér sönn ánægja að bjóða nýja stjórn velkomna til starfa."

Valur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri Taktikal, segir það það vera gríðarlega mikinn feng fyrir fyrirtækið að fá inn nýtt fólk í stjórn með mikla reynslu sem styður við vöxt félagsins.

„Þekking nýrra stjórnarmanna mun styðja við á sölu Taktikal á SaaS skýjalausnum og þjónustu við viðskiptavini, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Það er mér sönn ánægja að bjóða nýja stjórn velkomna til starfa,“ segir Valur