Ný vetrar­lína tísku­hússins Yves Saint Laurent, YSL, var kynnt í dag á vefnum þeirra. Her­ferðin var öll tekin upp á Ís­landi. Í stað þess að sýna nýju línuna á tísku­palli eins og venjan er var á­kveðið að taka módelin upp að ganga á sjö stöðum á Ís­landi.

Her­ferðin var fram­leidd af ís­lenska fram­leiðslu­fyrir­tækinu Pegasus og var að sögn Ella Cassata, einn af fram­leið­endum hjá Pegasus , stórt og krefjandi verk­efni.

Töku­staðirnir voru alls sjö. Stokks­nes, austur af Höfn, við Jökuls­ár­lón, Diamond Beach eða Breiða­merkur­sandi eins og það er kallað á ís­lensku. Þá fóru einnig tökur fram við Skógar­foss, Reynis­fjöru auk þess sem það má sjá skot af Svína­fells­jökli og Selja­lands­fossi í mynd­bandinu sem sjást bara í dróna­skoti. Þá var einnig tekið upp í Sand­vík nærri Kefla­vík, en þar var kvik­myndin Flags of our Fat­hers líka tekin upp, og í hrauninu við Her­dísar­vík.

„Þetta eru sjö staðir sem fólkið fór á. Þetta var rosa­lega stórt verk­efni og nærri 270 manns sem komu að þessu, þar af 120 sem komu að utan, í miðjum CO­VID-far­aldri,“ segir Elli en tökurnar fóru fram 18 til 23. mars.

Elli Cassata segir að verkefnið hafi verið krefjandi en mjög skemmtilegt.
Mynd/Aðsend

Vel gætt að sóttvörnum

Hann segir að vel hafi verið gætt að öllum sótt­vörnum. Allir sem komu að utan hafi farið í fimm daga sótt­kví og svo hafi allir verið skimaðir í það minnsta fjórum sinnum á tíma­bilinu. Áður en þau komu, Við komu, á meðan tökur stóðu og svo áður en þau fóru heim.

„Það voru rosa­lega margir bílar því við vorum kannski með 15 manna bíla en það máttu bara vera um sjö í hverjum bíl út af sótt­vörnum. Þannig þetta var á­kveðinn haus­verkur, en mjög krefjandi og skemmti­legt verk­efni,“ segir Elli.

En var ekki leynd í kringum verk­efnið líka?

„Jú, það mátti ekki taka neinar myndir, eða tala um þetta eða neitt hvað var að gerast. Við skrifuðum öll undir trúnaðar­samninga en nú er þetta komið á Inter­netið,“ segir Elli.

Hann segir að fyrir­sæturnar sem tóku þátt séu allar er­lendar og séu allar „catwalk-módel“ sem iðu­lega taki þátt í stórum tísku­sýningum. Þær eru flestar bú­settar í Frakk­landi þrátt fyrir að vera frá öðrum löndum.

„Ég var að klára að horfa og þetta er auð­vitað frá­bær land­kynning líka. Tryllt flott verk­efni,“ segir Elli að lokum.

Hægt er að horfa á alla sýninguna hér að neðan eða á vef Yves Saint Laurent.