Tískufyrirtækið Ray Ban og Facebook gefa saman út sólgleraugu sem gera notandanum kleift að taka upp myndbönd og myndir og birta á samfélagsmiðlum.

Slík tækni er sannarlega ekki ný af nálinni. Árið 2003 þróaði tæknifyr­ir­tækið Hewlett Packard frum­gerð sólgler­augna með inn­byggðri mynda­vél og árið 2012 gaf Google út sérstök gleraugu tengd Android snjallsímum. En tækni hefur þróast mikið síðustu ár og í samræmi við það hefur Facebook kynnt til leiks alls kyns nýjungar í snjallgleraugum sínum.

Mark Zuckerberg, einn stofnenda samfélagsmiðilsins Facebook, kynnti gleraugun í gær og sagði þau gera notendum Facebook kleift að njóta augnabliksins og vera í núinu á sama tíma og þeir skrá minningar.

Hægt er að taka myndir og myndbönd og svara símtölum með gleraugunum án þess að taka upp símann. Þá er einnig valkostur að gefa gleraugunum skipanir eins og að taka upp myndband og deila á Facebook. Í gleraugunum er pláss fyrir 500 myndir og 30 myndbönd.