Gjaldskrárhækkanir hins opinbera eiga mesta sök á því að verðbólga hækkaði mjög í janúar, þegar venjulega er verðhjöðnun vegna útsalna. Hagfræðingar búast við vaxtahækkun Seðlabankans í næstu viku.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85 prósent í janúar, langt umfram það sem greiningardeildir bjuggust við, og hækkar ársverðbólgan úr 9,6 í 9,9 prósent milli mánaða.

Greiningardeildir höfðu spáð 0,2–0,5 prósenta hækkun vísitölunnar milli mánaða og misstu því algerlega marks að þessu sinni.

Neytendasamtökin lýstu á mánudag yfir gífurlegum vonbrigðum með aðgerðir stjórnvalda sem leiða til þeirrar miklu verðbólgu sem fréttir berast af í dag. „Aldrei þessu vant nær venjubundin lækkun verðbólgu vegna janúarútsala ekki að slá á hækkunina að neinu ráði. Hækkun verðbólgu í janúar er að mestu tilkomin vegna hækkana á búsi, bílum og búvörum. Þessi kostnaðarliðir eiga það sameiginlegt að hið opinbera stýrir verði þeirra að verulegu leyti með álögum. Því miður virðist það ganga eftir sem stjórn Neytendasamtakanna benti á í umsögn um fjárlagafrumvarpið, að krónutöluhækkanir gjalda ríkisins skila sér beint út í verðbólguna.

Una Jónsdóttir, aðalhagfræðingur Landsbankans.

Stjórn Neytendasamtakanna segir stöðuna grafalvarlega og skorar á stjórnvöld að ganga á undan með góðu fordæmi og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr verðbólgu.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, tekur í sama streng og Neytendasamtökin og segir stóran hluta þessarar hækkunar stafa af gjaldskrárhækkunum hins opinbera. „Janúarmælingin hefur þar af leiðandi ekki kúvent verðbólguhorfunum, þótt þær hafi lítillega versnað,“ segir Erna sem telur nokkuð víst að stýrivaxtahækkun fylgi í kjölfarið, en næsti vaxtaákvörðunardagur peningastefnunefndar Seðlabankans er eftir viku.

Una Jónsdóttir, aðalhagfræðingur Landsbankans, segir það valda áhyggjum hversu almenn verðbólgan sé orðin, það er hve margir undirliðir vísitölunnar hækka verulega.

„Síðast þegar verðbólgan mældist jafn mikil og nú höfðu einungis 17 prósent undirliðanna hækkað um meira en 10 prósent. Núna er staðan slík að 27 prósent undirliða hafa hækkað meira en 10 prósent. Við sjáum framlag húsnæðis til verðbólgu aðeins dragast saman, enda hefur kólnun gert vart við sig á fasteignamarkaði, en á móti kemur gengisveiking og hækkanir á innfluttum vörum. Við sjáum að framlag innfluttra vara til verðbólgu hefur aukist á síðustu mánuðum,“ segir hún.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.

Una segir peningastefnunefnd Seðlabankans án efa munu líta til hærri versnandi verðbólguhorfa við næstu vaxtaákvörðun. „Líkur á óbreyttum vöxtum og jafnvel lækkunum síðar á árinu fara dvínandi við þessar aðstæður. Nefndin mun örugglega líta svo á að herða þurfi taumhaldið þegar verðbólga tekur sig upp með þessum hætti.“

Erna Björg bendir á að þrátt fyrir að húsnæðisverð lækki milli mánaða hækki reiknuð húsaleiga sem er veigamikill þáttur vísitölu neysluverðs. Nú megi búast við vaxtahækkun Seðlabankans sem þýði að húsnæðisverð þurfi að lækka um um það bil 0,8 prósent milli mánaða til að framlag reiknaðrar húsaleigu verði hlutlaust. Arion banki gerir ráð fyrir því að reiknuð húsaleiga virki til hækkunar verðbólgu vísitölunnar á næstu mánuðum þrátt fyrir verðlækkanir á húsnæðismarkaði.