Novator ehf. tapaði 709 milljónum árið 2019. Til samanburðar hagnaðist fjárfestingafélagið um 573 milljónir króna árið áður. Rekja má tapið á árinu til þess að kröfur voru færðar niður um 810 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi. Samkeppniseftirlitið upplýsti að félagið hefði fjármagnað taprekstur Frjálsrar fjölmiðlunar, sem átti DV og fleiri miðla.

Novator ehf. er eitt af dótturfélögum alþjóðlega fjárfestingafélagsins Novator, sem einkum er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Eigandi Novator ehf. er Reliquum S.á r.l.

Eigið fé Novator ehf. var 3,1 milljarður króna við lok árs 2019 en skuldir einungis 8,6 milljónir króna. Í fyrra greiddi félagið 3,4 milljarða króna í arð. Skuldabréfaeign félagsins jókst úr 1,3 milljörðum króna árið 2018 í 1,8 milljarða króna árið 2019. Í árslok hafði félagið veitt tíu aðilum lán. Novator heldur utan um hlut í gagnaverinu Verne Global sem bókfærður er á 1,1 milljarð króna.